Adagio fyrir strengi eftir Samuel Barber. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi: Daníel Bjarnason.


Árni Heimir Ingólfsson skrifar:

Bandaríska tónskáldið Samuel Barber (1910–1981) naut mikillar hylli fyrir ljóðrænan, tjáningarríkan stíl sem meðal annars má heyra í fiðlukonserti hans (1939) og Adagio fyrir strengi frá árinu 1936. Hið síðarnefnda var upphaflega hægur þáttur strengjakvartetts en vinsældir þess voru tryggðar þegar ítalski hljómsveitarstjórinn Arturo Toscanini tók það upp á arma sína í útsetningu fyrir stóra strengjasveit.

Verkið var leikið í útvarpi þegar tilkynnt var um lát Roosevelts Bandaríkjaforseta árið 1945 og hefur með tíð og tíma orðið tákn þjóðarsorgar þar í landi, er iðulega flutt við opinber tækifæri þegar fyrirmenni eru kvödd hinstu kveðju. Verkið var líka notað með eftirminnilegum hætti í mynd Olivers Stone um hrylling Víetnamstríðsins, Platoon, frá árinu 1986.