Gerir fjarlægðin fjöllin blá? Halldór Armand Ásgeirsson rýnir í hugmyndir Roland Barthes og veltir fyrir sér hvernig vegalendir og rými hafa áhrif á ástir og langanir.
Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:
Bókin Orðræða ástarinnar eftir Roland Barthes kom út árið 1977 og geymir heimspekileg textabrot höfundar um ástina og þá helst hvernig hún birtist í orðum elskhugans. Einn kaflinn er um fjarveru og í honum bendir Barthes á að jafnvel þótt hin elskaða manneskja sé fjarverandi, þá er hún um leið viðstödd, vegna þess að elskhuginn kallar hana fram með orðum sínum.
Eða eins og Barthes skrifar: „Látlaust held ég áfram orðræðunni um fjarveru hinnar elskuðu manneskju; sem reyndar er fráleit aðstaða; manneskjan er fjarverandi, en um leið viðstödd sem viðmælandi. Afraksturinn er óbærilegt nú; ég er rekinn eins og fleygur milli tveggja tíða, milli þess sem ég sé og þess sem ég ávarpa. Þú ert farin, og ég harma það, og þú ert líka hér, vegna þess að ég er að ávarpa þig. Og þá rennur upp fyrir mér hvað núið, þessi illviðráðanlega tíð, er: hreinn skammtur af angist.“
Þetta er lýsing á ástandi sem eflaust flestir kannast við; að girnast eitthvað sem er ekki á staðnum. Viðfangið er alls staðar nálægt, birtist á hverju götuhorni, í hverju andliti, í hverjum draumi, en er samt ekki þarna. Æði elskhugans gerir elskuðu manneskjuna að guðdómlegri veru, sem getur verið þar sem hún er ekki, sem getur haft áhrif á það sem hún snertir ekki, sem getur breytt öllu með því einu að gera ekkert.
En síðar spyr Barthes: „En er þráin ekki alltaf hin sama, hvort sem viðfangið er nærri eða ekki? Er viðfangið ekki alltaf fjarverandi?“ Þessi spurning er sett fram innan sviga og höfundur fer ekki nánar ofan í saumana á þessu álitamáli, en í mínum augum er þetta lykilspurningin í öllu sem tengist fjarveru og þrá. Já, hvert er hlutverk fjarlægðarinnar í þránni? Hvað gerir fjarlægðin fyrir þetta ástand, sem við köllum þrá eða girnd? Hver er munurinn á því að elska manneskju sem er hér og manneskju sem er þar. Með öðrum orðum: Er þrá kannski alltaf fjarlægð?
Ég tel mig skilja hvað Barthes á við þegar hann spyr hvort viðfangið, sem sagt hin elskaða manneskja, sé ekki alltaf fjarverandi. Það er einangrun innbyggð í ástandið sem kallað er þrá. Ástandið er svo einkalegt, svo gjörsamlega bundið við elskandann, að þráin er eins og rimlar sem einangra hann ekki aðeins frá því sem hann girnist, heldur umheiminum í heild sinni. Þráin er önnur pláneta, annað sólkerfi, önnur vetrarbraut. Svo að jafnvel þótt hin elskaða manneskja sé beint fyrir framan nefið á elskandanum, þá er hún samt í vissum skilningi fjarverandi.
Leiðarstjarna í eyðimörkinni
Og svo er þráin vitfirra, hún er æði, hún er hugsýki, sem er alltaf grundvölluð á órum um hina manneskjuna. Það sem elskhuginn girnist í raun og veru er tiltekin túlkun í höfði hans, fantasía um hina manneskjuna, og þessi fantasía er samkvæmt skilgreiningu alltaf úr seilingarfjarlægð. Manneskja sem er vitstola af ást er á valdi fantasíu sinnar um hina manneskjuna og eltir hana eins og leiðarstjörnu út í eyðimörkina. Og þannig er sá eða sú sem þú elskar, í raun alltaf fjarverandi.
Kæri hlustandi, sjáðu þig fyrir þér í Júróvisjónpartí þegar þú varst 18 ára, það er vor í lofti, sól skín í heiði, andlitin eru rjóð, ilmur af grillmat og kolum berst inn um svaladyrnar, fuglarnir syngja og manneskjan sem þú elskar situr í sófanum inni í stofu. Þú ert í eldhúsinu, í miðju samtali, en hugur þinn er samt inni í stofunni hjá því sem þú þráir. Þú ert á valdi löngunarinnar. Manneskjan sem þú elskar er einhvern líka hérna inni í eldhúsinu. Og þú tafsar, dettur aðeins út, svarar í eins atkvæðisorðum, já, nei, kinkar kolli, akkúrat, einmitt, en hefur ekki mikið að segja, ekki margt fram að færa, það er ekki pláss fyrir neinar hugsanir innra með þér, þú þráir of mikið til þess að geta hugsað, þú þráir of mikið til þess að vera á staðnum.
Verðmætin í hryggðinni
Svo stendurðu upp, grípur í bjórflöskuna og röltir inn í stofuna og sérð þar manneskjuna sem þú þráir, hlæjandi, týnda í augnablikinu, yndislega, og augu hennar leiftra. Þú sýnir engin svipbrigði, lætur á engu bera. Þú hylur þrá þína. Það er nauðynlegt af því þú veist að þráin er hamslaus og vitfirrt og þess vegna hættuleg. Þú virðir hana fyrir þér, manneskjuna sem þú þráir. Hún er nærri. Hún situr þarna beint fyrir framan þig. En er hún þarna raunverulega? Nei, vegna þess að það sem þú þráir er draumur, tindrandi stjarna, sem er alltaf utan seilingar. Hún situr ekki þarna, heldur skín hún hátt á himni fyrir ofan þig, skærasta stjarnan á svörtum dúk næturinnar, svo ómótstæðileg, svo fögur, svo heillandi, en um leið svo óendanlega langt í burtu.
Kannski kunnum við ekki nægilega vel að meta fjarlægðina sjálfa og þær gjafir sem hún gefur. Kannski hunsum við of auðveldlega verðmætin sem aðeins fjarlægðin getur leitt í ljós. Okkur líður vitaskuld ekki vel þegar við erum aðskilin frá því sem við þráum, en um leið er það þessi fjarlægð sem gerir hlutskipti okkar svo hrífandi blátt, svo nístandi, svo dýrlega mannlegt. Og þessi tilfinning ein og sér, er óendanlega verðmæt. Er eitthvað fegurra en hryggðin sem fjarlægðin skapar? Titrar lífið sjálft nokkurn tímann af meiri krafti í æðum okkar en þegar við grátum einhvern í órafjarlægð frá okkur? Já, er það ekki magnað og eiginlega einstakt þegar hin elskaða manneskja sér aldrei tárin sem fjarvera hennar framkallar á öðrum stað? Hugsaðu til baka: Varstu einhvern tímann meira á lífi en þegar þráin tætti þig í sundur, þegar fjarlægðin leysti þig upp í ryk sem sáldraðist út í buskann? Fjarlægðin eflir þránna og þannig eflir hún sjálfa mennskuna og er það ekki vitnisburður um styrk og mikilfengleika mannsandans, að hann geti slitið af sér hlekki tíma og rúms, og þrái ekkert heitar en það sem hann er aðskilinn frá, jafnvel það sem er löngu glatað og horfið inn í svartnætti tímans.
Fjarlægðin er aðalhráefnið í þránni
Já, kannski erum við of upptekinn af því að sjá þrá okkar sem vandamál, spurningu sem þarfnast svars, í stað þess að líta á hana sjálfa sem eftirsóknarvert og fallegt ástand. Rebecca Solnit orðar þetta óaðfinnanlega í bók sinni A Field Guide to Getting Lost, eða Leiðarvísir að því að týnast: Hún skrifar: „Við meðhöndlum þrá eins og vandamál sem þarf að leysa. Við einblínum á það sem þráin beinist að og hvernig við getum komið höndum yfir það, fremur en að beina athygli okkar að eðli þrárinnar sjálfrar og hvernig við skynjum hana, jafnvel þótt oft sé það fjarlægðin milli okkar og þess sem við þráum, sem fyllir rúmið af bláma löngunarinnar.“
Já, er þetta ekki bara beint í mark? Fjarlægðin er aðalhráefnið í sjálfri þránni, en samt viljum við ekki kannast við bragðið af henni. Kannski er þetta ein af þessum lúmsku gjöfum Guðs til manna, sem eltast við langanir sínar eins og hundur við eigið skott; það sem gefur lífinu bæði áferð og inntak er ekki það að öðlast það sem maður þráir, heldur þráin sjálf. Eða með einfaldari orðum: Þrá þín er miklu verðmætari en það sem þú þráir.