Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram gegn Árna Páli Árnasyni í formannskjöri Samfylkingarinnar. Sigríður Ingibjörg ræddi framboð sitt í kvöldfréttum Sjónvarps en hún tók þessa ákvörðun klukkan fimm nú síðdegis. Landsfundur flokksins hefst á Hótel Sögu á morgun.

Sigríður Ingibjörg sagði í fréttum að Samfylkingin hefði ekki náð sér á strik eftir síðustu þingkosningar. Gott gengi flokksins í borginni hefði sýnt að hann ætti mikið inni.

Sigríður sagðist hafa fundið fyrir vaxandi þrýstingi að einhver byði sig fram - hún hefði verið hikandi í fyrstu „en að hika er það sama og tapa,“ sagði Sigríður Ingibjörg.

Hún upplýsti í viðtali við fréttamann eftir sjónvarpsfréttir að þessi ákvörðun hefði verið tekin klukkan 17. Aðspurð hvort framboð hennar fæli í sér gagnrýni á störf Árna Páls sem formanns  sagði Sigríður: „Að sjálfsögðu - annars væri ég ekki að bjóða mig fram.“

Síðasti landsfundur var haldinn í febrúar 2013. Á þeim fundi tóku þau Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir við sem formaður og varaformaður.

Þá var Samfylkingin í ríkisstjórn en í kosningum um vorið beið hún mikinn ósigur, tapaði 11 þingsætum og fékk tæp 13 prósent atkvæða. Eftir það hefur verið á brattann að sækja í könnunum og í nýjustu könnun í dag er fylgið 15,5 prósent.

Sigríður hefur verið þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður síðan 2009.