Það er leikið af miklum hraða og krafti í farsanum Sex í sveit segir María Kristjánsdóttir gagnrýnandi. „Tímasetningar eru góðar og sýningin nær hnökralaus fram yfir hlé. En þá fer eðlilega að kenna þreytu jafnt hjá leikendum sem áhorfanda.“
María Kristjánsdóttir skrifar:
Ég var ansi þjóðleg einn laugardaginn og hélt upp á hrútadag með því að fara fyrst á mannamót til að fagna útgáfu bókarinnar Kindasagna og um kvöldið á frumsýningu í Borgarleikhúsinu á „Sex í sveit“ farsa eftir Gísla Rúnar Jónsson byggðum á plotti franska leikskáldsins Marc Camoletti. Höfundarrétturinn er vissulega hjá Marc en að sínu leyti er sæmdarrétturinn allur hjá Gísla Rúnari svo mjög sem hann hefur þýtt og snúið textanum upp á íslenskar aðstæður.
Þar sem ég hafði ekki séð farsann þegar hann gekk hér í þrjú ár á síðasta áratug fyrri aldar, þá misreiknaði ég mig á þessu með sveitina. Því verkið gerist í glæsisumarbústað efnafólks úr Reykjavík sem stendur við Eyjafjörð. Engar aðrar skepnur en mannskepnur voru mættar á svið og ég komst líka að því að talan sex í titlinum hefur tvíræða merkingu.
Benedikt og Þórunn nokkur eru sem sagt komin í sumarhöllina. Þórunn er á leið til Egilsstaða að heimsækja móður sína, en Benedikt hefur leynilega boðið viðhaldinu Sóleyju og vini sínum Ragnari til veislu meðan hún er í burtu. Þórunn kemst að því að Ragnari er væntanlegur, en hann reynist þá vera viðhaldið hennar, svo hún breytir planinu og situr sem fastast. Flækist þá málið þegar Benedikt þarf að snúa sér með ósannindum út úr vandræðunum og flækist enn þegar Sólveig kokkur hjá veisluþjónustu mætir á staðinn og síðar Sóley. Misskilningur á misskilning ofan eins og vera ber.
Bergur Þór Ingólfsson velur að gera persónurnar skoplegar frá byrjun og setja strax af stað mikinn farsahraða sem kemur auðvitað niður á leiknum á lokasprettinum. Þannig fær Jörundur Ragnarsson sem Benedikt ekki tækifæri til að afbyggja status sinn sem sá sem allt hefur í hendi sér, heldur er hann frá byrjun maður sem ekki getur haft stjórn á hlutunum og gerir það auðvitað vel, einkar skemmtilegt er hvernig hann undirstrikar flækjustig sitt með löngum útlimunum. Það er líka gleðilegt að Jörundur skuli aftur vera kominn í atvinnuleikhús, því ekki er úrvalið mikið af góðum karlleikurum á hans aldri þar á bæjum. Sólveig Guðmundsdóttir leikur Þórunni eiginkonu hans af miklu öryggi og krafti. Persóna hennar fær vissulega ekki bestu brandarana frá höfundi samt held ég að leikstjórinn hefði geta unnið betur með henni kómíska þáttinn. Viðhöldin tvö eru auðvitað miklu yngri en hjónin. Ragnar túlkar Sigurður Þór Óskarsson sem nánast hræddan krakkaskratta og á mörg fín augnablik en Vala Kristín Eiríksdóttir sem hin dæmigerða ljóska Sóley er gamanleikari af guðs náð. Hún hefur þó enn ekki þá þjálfun í raddbeitingu að geta haldið dampinum ‒ út allar nærri fjórar klukkustundirnar. Ég satt að segja vona að hún festist ekki í hlutverki ljóskunnar en ég sá a.mk. tvær auglýsingar með henni í sjónvarpinu í sömu viku þar sem hún er notuð sem slík. Hin fjölhæfa Katrín Halldóra Sigurðardóttir, sem leikur kokkinn Sólveigu, er neydd til að taka að sér aðskiljanleg hlutverk önnur en að vera kokkur og sér til þess að hagnast á því. Katrín leggur salinn strax að fótum sér sem kröftug bredda, en norðlenska framburðinum ætti hún samt að henda einkum af því að eiginmaður hennar Benoný leikinn af Haraldi Erni Stefánssyni talar þingeysku eins og fæddur sé hann á Hömrum í Reykjadal þegar hann birtist örskamma stund í lokin til að sækja konu sína.
Eins og áður segir er leikið af miklum hraða og krafti allt frá byrjun, tímasetningar eru góðar og sýningin nær hnökralaus fram yfir hlé. En þá fer eðlilega að kenna þreytu jafnt hjá leikendum sem áhorfanda. Skrifast það að nokkru á leikstjórann og uppbyggingu hans á sýningunni en þó mest á höfundinn sem teygir endalaust lopann í plottinu. Hér hefði Gísli Rúnar átt að grípa inn í og skera niður og lagfæra. Honum hefði ekki orðið skotaskuld úr því með alla sína þekkingu á gamanleik eins og góð staðfærsla hans og þýðing sýnir. Ég veit ekki alveg hvað skal segja um leikmynd Petr Hluzek. Hún þjónar farsaleiknum vel með dyrum sínum, tröppum og palli. En ég á afskaplega erfitt með brúnar, gráar leikmyndir, allt hverfur inn í þær og mér fannst hún ekki falleg. Í hléinu var ég fullvissuð um það af vinkonu minni einni að svona væru sumarbúðstaðir hinna betur stæðu núna, þetta væri veruleikinn. Og ég þakkaði í hljóði fyrir að þekkja ekki neina slíka. Búningar Stefaníu Adolfsdóttur voru misgóðir. Bestir voru þeir á Katrínu Halldóru , skemmtilega skoplega lausnin þegar kokkabúningi hennar er breytt í samkvæmiskjól er hins vegar fengin úr breskri sýningu.
Svo er það þetta með farsann sem Gísli Rúnar fjallar um í leikskrá. Að mér sækir ekki hugsunin um hvort hann sé léttvægari skemmtan en önnur. Hinu velti ég hins vegar fyrir mér hver sér staða farsa innan leikhússins í dag. Hér áður fyrr voru þeir ásamt íslenskri leikritun ein helsta tekjulind leikhúsa. En hafa söngleikir og uppistand ekki tekið yfir það hlutverk farsans í afþreyingarsamfélagi okkar? Og líður okkur mörgum ekki stundum eins og þetta samfélag vilji helst láta okkur drepast úr hlátri?