Rafvæðing hafna er liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þar segir að fyrst verði lögð áhersla á svokallaða lágspennuinnviði, sem flest fiskiskip og önnur smærri skip geti nýtt sér. Síðar verði skoðaður möguleiki á uppsetningu háspennuvirkja í höfnum fyrir skemmtiferðaskip. Veitur áætla að raftenging fyrir skemmtiferðaskip í Sundhöfn kosti um fjóra milljarða króna.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra segir að markmið ríkisins sé að orkuskipti í haftengdri starfsemi nái tíu prósentum árið 2030. „Áhersla okkar núna er hins vegar á orkuskipti í samgöngum á landi og það er mat manna að það sé mestan árangur þar að ná. Við erum að fikra okkur í rétta átt en eins og staðan er núna er áherslan á samgöngur á landi. Það hefur þá áhrif á ákvarðanir hvað varðar fjármögnun til dæmis í þessa haftengdu starfsemi.“
Skýrsla um orkuskipti í íslenskum höfnum var kynnt í byrjun árs. Þar segir að staða raftenginga til minni skipa sé nokkuð góð, en háspennutengingar vanti fyrir stærri skip. Þórdís segir ekki ljóst hvenær hægt verði að tengja skemmtiferðaskip við rafmagn. Fé verður sett í orkuskipti í haftengdri starfsemi á næstu árum og greiningarvinna er hafin.
Ekki tæknilegar hindranir, heldur fjárhagslegar
„Orkuskipti þegar kemur að samgöngum á landi, okkar flutningskerfi þolir það. Þessi risastóru skip sem þurfa rosalega mikið afl á skömmum tíma, það eru önnur lögmál sem þar gilda. Það er ekki þannig að við getum gleypt fílinn í einu lagi. Við erum að taka þetta í skrefum. Eins og ég segi, það eru ekki tæknilegar hindranir fyrir þessari uppbyggingu heldur fjárhagslegar. Auðvitað mun samt margt gerast áður en risastór skemmtiferðaskip geti stungið sér í samband þegar þau koma hér við höfn. Það er alveg augljóst.“
Telur dreifikerfið ráða við rafvæðingu skemmtiferðaskipa
Jóhannes Þorleifsson, forstöðumaður hjá Veitum, telur að rafdreifikerfið geti vel annað þeirri aflaukningu sem rafvæðing skemmtiferðaskipa yrði, sérstaklega þar sem flest þeirra komi yfir sumartímann. „Þó svo að aflþörfin á svona skipi sé á við Mosfellsbæ, þannig að þetta er ekkert smá afl sem við erum að tala um.“ Hann segir að vissulega þurfi að byggja upp innviði þessu tengda, bæði leggja jarðstrengi og koma upp landtengingum.
Telur að ríkið þurfi að taka þátt í uppbyggingu innviða
Veitur áætla að kostnaður við að landtengingu fyrir skemmtiferðaskip í Sundahöfn í Reykjavík geti orðið um fjórir milljarðar króna. Veitur ráði hins vegar ekki við slíka fjárfestingu og því þyrfti að koma til samstarf ríkisins við Veitur og Faxaflóahafnir. Í þeim löndum þar sem þegar hefur verið tekin upp raftenging í landi fyrir skemmtiferðaskip hafi stjórnvöld alltaf haft aðkomu að framkvæmdinni.