„Ísland var ekki draumaland flakkarans. Það var eflaust býsna kaldranalegt að flakka um vetur jafnt sem haust og ég held að það hljóti að hafa verið ansi erfitt á köflum. Næðingssamt líf,“ segir Jón Jónsson sem tekið hefur saman sögur af förufólki og sett á bók.
Á dögunum kom út bókin Á mörkum mennskunnar; viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi eftir þjóðfræðinginn Jón Jónsson. Bókin tilheyrir ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar og í kynningartexta segir: Sögur af sérkennilegu fólki hafa lengi heillað Íslendinga. Þar á meðal eru fjölbreyttar sagnir um fátækt förufólk sem flakkaði um landið fyrr á öldum. Hér er fjallað um þessar frásagnir og stöðu flakkara í samfélaginu fram á 20. öldina. Þeir voru umtalaður hópur, rækilega jaðarsettur og oft líkari þjóðtrúarverum en manneskjum í sögunum. Hörmulegt atlæti Stuttu-Siggu í æsku, skringileg skemmtiatriði Halldórs Hómers, rifin klæði Jóhanns bera og uppreisnarseggurinn Sölvi Helgason koma öll við sögu.“
Höfundurinn Jón Jónsson hitti umsjónarfólk Kiljunnar fyrir á fjallsheiði á dögunum og sagði frá lífi íslensks flökkufólks fyrr á öldum. „Mesta skemmtiefni fólks fyrr á öldum var flökkufólkið og heimsóknir þess á bæina víðsvegar um land. Flakkararnir eru mjög umtalaðir og mikið um þá skrifað. Það má í raun segja að síðasta förufólkið sem er uppi svona um 1870 og áfram - að það sé svona fræga fólk síns tíma, þetta var svona sameiginlega umræðuefni' í sveitunum þá.“
Jón Jónsson er þjóðfræðingur sem býr og starfar norður á Ströndum. Hann hefur unnið að margvíslegum nýsköpunar- og miðlunarverkefnum á sviði þjóðfræði og starfar nú hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofu sem hefur aðsetur á Hólmavík.
Egill Helgason ræddi við Jón í Kiljunni. Viðtalið í heild má horfa á hér að ofan.