Breska lögreglan hefur það sem af er degi handtekið 135 umhverfisverndarsinna í Lundúnum. Þeir hafa reynt að loka vegum að breska þinghúsinu og fleiri stjórnsýslubyggingum í Westminster til að vekja athygli á kröfum um að stjórnvöld grípi til aðgerða í loftslagsmálum, hætti kolavinnslu, olíuvinnslu með vökvabroti og fleira í þeim dúr.

Fólkið er í baráttusamtökunum Extinction Rebellion, sem hvetja til borgaralegrar óhlýðni, uppþotum og ólátum á almannafæri til að koma boðskap sínum á framfæri. Til aðgerða af þessu tagi hefur komið víðar í dag, meðal annars í Sydney í Ástralíu. Þar söfnuðust hundruð mótmælenda saman og settust á götu til að hindra umferð. Lögreglumenn drógu fólkið í burtu. Þrjátíu úr hópnum voru síðar ákærðir.