Fleiri en 6.000 manns hafa skrifað undir stuðningsyfirlýsingu gegn brottvísun afganskrar fjölskyldu til Grikklands sem nemendur í Hagaskóla í Reykjavík standa fyrir. Krakkarnir gengu úr Hagaskóla í morgun og færðu Hirti Braga Sverrissyni, formanni kærunefndar útlendingamála, undirskriftalistann í Skúlagötu.
Skólasystir þeirra Zainab Safari er með í för en henni og fjölskyldu hennar á að vísa úr landi og til Grikklands. Undirskriftasöfnunin hófst í byrjun vikunnar og er alfarið í höndum nemenda skólans.
Með söfnuninni vilja nemendurnir að Zainab, 14 ára nemandi við skólann, móðir hennar og yngri bróðir, verði ekki send til Grikklands, líkt og til stendur. Þau eru Afganir, sem hafa búið í Íran. Þaðan flúðu þau til Grikklands og verða að óbreyttu send þangað.
Áður hafði réttindaráð skólans staðið að undirskriftasöfnun en hún var stöðvuð því það þótti óeðlilegt að söfnunin væri að nokkru leyti á vegum skólans. Að sögn Ingibjargar Jósefsdóttur, skólastjóra í Hagaskóla, hefði þurft að tilkynna foreldrum sérstaklega um undirskriftasöfnunina ef hún væri á vegum skólans.
Krakkarnir eru nú á leiðinni í Dómsmálaráðuneytið þar sem þau vilja afhenda Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur dómsmálaráðherra undirskriftalistann.
Á myndskeiðinu hér að ofan, sem fréttastofa fékk sent frá vegfaranda, má sjá nemendahópinn ganga yfir göngubrúna úr Vatnsmýri yfir Hringbraut.