Mörg hundruð Íslendingar fara í magaminnkun á hverju ári, annað hvort hér eða utan landsteinanna. Aðgerðunum hefur fjölgað mikið og segir læknir að fylgikvillar geti verið alvarlegir, þó að þeir séu sjaldgæfir.
Á Landspítalanum eru nú gerðar í kringum 70 magaminnkunaraðgerðir á ári. Spítalinn þarf líka að taka á móti öllum sem fá fylgikvilla eftir aðgerð óháð því hvar hún var gerð:
„Fylgikvillar sjaldgæfir þ.a. heildarfjöldi sjúklinga með einhvers konar alvarlega fylgikvilla er nú sem betur fer ekki hár,“ segir Aðalsteinn Arnarson skurðlæknir á Landspítalanum og á Klínikinni.
Eru einhver alvarleg tilvik á þessu ári sem komið hafa upp eftir svona aðgerð sem þú hefur séð?
„Já, já það hafa komið nokkur alvarleg tilvik.“
Þá verður leki í kviðarholi því eitthvað hefur ekki gróið rétt. Talið er að 2 til 3% þeirra sem fari í magaminnkunaraðgerðir fái fylgikvilla. Aðalsteinn segir hlutfallið hér svipað og í öðrum löndum. Í vísindagrein í Læknablaðinu 2016 er greint frá árangri magahjáveituaðgerða á Íslandi 2001 til 2015.
Þeir sem fara til útlanda fá sumir greitt hjá Sjúkratryggingum að uppfylltum skilyrðum meðal annars ef þeir hafa beðið of lengi eftir aðgerð á Landspítalanum. 84 slíkar umsóknir bárust Sjúkratryggingum í janúar til október og hafa langflestar verið samþykktar. Meðalkostnaður fyrir aðgerð nemur um 950 þúsund krónum.
Medical Travel hefur milligöngu um aðgerðir í Lettlandi. 135 Íslendingar hafa farið á vegum þeirra á þessu ári og Sjúkratryggingar greitt fyrir hluta þeirra.
Fyrirtækið Hei - medical travel skipuleggur ferðir í aðgerðir í suðurhluta Póllands. Frá maí til september fór 21 í aðgerð.
Þeir Íslendingar, sem fara í aðgerð hér heima utan Landspítala, fá ekkert greitt frá Sjúkratryggingum. Klínikin í Ármúla hefur gert 220 aðgerðir það sem af er ári. Ekki fengust upplýsingar hjá Gravitas.
Embætti landlæknis er langt komið með rannsókn á atvikum er varða dauðsföll tveggja kvenna eftir magaminnkunaraðgerð, sem læknir hjá Gravitas gerði.
Samkvæmt bráðabirgðatölum landlæknis 1. október 2018 til 30. september 2019 voru 67 aðgerðir gerðar á Landspítalanum, 224 í Klínikinni og 157 hjá Gravitas. Nú í október voru 93 á biðlista hjá Landspítalanum, 27 hjá Klínikinni og 20 hjá Gravitas.
„Svona heilt yfir þá vitum við að þessum aðgerðum er að fjölga og gróflega áætlað eru kannski einhvers staðar á bilinu 6-800 Íslendingar að fara í svona aðgerð á ári,“ segir Aðalsteinn.