Öryggismál og svokallað internet hlutanna eru í öndvegi nýrrar Evrópulöggjafar um fjarskipti. Henni er ætlað að veita neytendum jafnt aðgengi að alþjónustu í fjarskiptum. Heildarendurskoðun er hafin á lögum um fjarskipti hér á landi.

Til alþjónustu í fjarskiptum telst sú þjónusta sem í boði er öllum neytendum á viðráðanlegu verði, óháð búsetu. Kóðinn er heiti á nýrri löggjöf Evrópusambandsins um fjarskipti. Kóðanum er meðal annars ætlað að auka netöryggi og tryggja neytendum aðgengi að fjarskiptaþjónustu. Áform um innleiðingu laganna voru kynnt í dag. Meðal þeirra sem fluttu ávarp var Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu og sveitastjórnarráðherra.

„Þetta hefur neytenda- og öryggisvinkil. Þetta á að tryggja það að allir neytendur séu tryggðir með alþjónustu. Að á endastöð fái þeir nothæfa og nægjanlega þjónustu. Það er ekki skilgreindur hámarkshraði. En við t.a.m. á Íslandi, fjarskiptafyrirtækin og hið opinbera með því að fara í þetta ljósleiðaraverkefni og  samkeppni  fjarskiptafyrirtækjanna meira hérna  í þéttbýli höfum tryggt að við erum með mjög mikinn hraða á okkar gagnaflutningum,“ segir Sigurður Ingi.

Aðeins mannshugurinn sem takmarkar möguleikana

Ákveðnir þættir endurskoðunarinnar hafa nú þegar verið teknir inn í löggjöfina, eins og fjarskiptaáætlun til fimm ára og NIS-tilskipunin um netöryggi sem innleidd var í vor. Meðal þess sem löggjöfin fjallar um er innleiðing fimmtu kynslóðar farsímanets, 5G. Sigurður segir að það muni gjörbreyta veruleika fólks á ýmsum sviðum svo sem í sjálfvirkum samgöngum og fjar-heilbrigðisþjónustu.

„Það eru margir sem segja að þetta muni breyta öllu.  Þegar það er talað um internet hlutanna. Þar sem hlutir og tæknin tala saman sem er hluti af fjórðu iðnbyltingunni. Og það eru óendanlegir möguleikar, Það er bara mannshugurinn sem takmarkar hvað við getum notað þetta í,“ sagði Sigurður.

Öryggismál stór hluti 

Öryggi fólks í netheimum vegur sífellt þyngra þegar stór hluti samskipta fólks fer fram á netinu. Þó að þau séu yfirleitt af hinu góða segir Sigurður að fara verði gætilega. Reglunum er ætlað að samræma löggjöf á milli ríkja.

„Þá opnast auðvitað nýjar víddir, nýjar hliðar, skuggahliðar. Sem geta verið öryggisbrestir eða þeir sem nota netið til glæpsamlegs tilgangs. Þess vegna er mikilvægt að allir séu á sama stað hvað það varðar. Hluti af þessu regluverki og öllu sem við erum að fjalla um í fjarskiptum snýst þess vegna mikið um öryggisráðstafanir,“ segir Sigurður.