Búast má við því að 5G fjarskiptakerfið verði tekið í gagnið á fyrrihluta næsta árs, segir Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar Póst- og fjarskiptastofnunar. Hann segir að miðað við þá vinnu sem hafi verið lagt í nú þegar sé ekki of mikil bjartsýni að ætla að kerfið verði tilbúið til notkunar innan árs.
„Við tölum oft um það að fjarskiptin verði límið í fjórðu iðnbyltingunni, það sé grundvöllurinn fyrir því að þær þjónustur sem við munum sjá koma, og verða okkur vonandi eingöngu til gagns, þær virki. Það er meðal annars 5G kerfið,“ sagði Þorleifur í kvöldfréttum í sjónvarpi.
Þorleifur segir að nýja fjarskiptakerfið kalli á mikla uppbyggingu dreifikerfis. Fjarskiptanetið þarf að vera þéttriðnara en það sem nú er. Bilið milli senda þarf að vera styttra en nú er. Einnig þarf að leggja ljósleiðara alla leið að sendunum. Því þarf að efla ljósleiðarakerfið líka.