Tólf voru myrt í skotárás á bæjarskrifstofu í bænum Virginia Beach í Bandaríkjunum í gær. Lögreglustjórinn segist aldrei aftur ætla að nefna árásarmanninn á nafn. Ólíklegt verður að teljast að gerðar verði breytingar á skotvopnalöggjöf í Bandaríkjunum í kjölfar árásarinnar.

Strandbærinn Virginia Beach er í suðausturhluta Virginíuríkis. Þar býr um hálf milljón. Það var um klukkan fjögur seinnipartinn í gær að staðartíma sem árásarmaðurinn ruddi sér leið inn á bæjarskrifstofuna og hóf að skjóta á öll sem fyrir voru. Hann myrti 12. Þau voru öll starfsmenn bæjarskrifstofunnar, utan eins sem var verktaki.  Árásarmaðurinn var svo skotinn til bana eftir umsátur lögreglu.

James Cervera, lögreglustjóri í Virginia Beach, sagði á blaðamannafundi í dag að árásarmaðurinn hefði verið samstarfsmaður fólksins sem hann myrti. Hann hét DeWayne Craddock og var fertugur. Cervera sagðist aldrei aftur ætla að nefna nafn árásarmannsins. Kastljósinu verður beint að minningu þeirra tólf sem létust í árásinni. 

Það eru svipaðar áherslur og hjá stjórnvöldum í Nýja Sjálandi þegar 51 var skotinn til bana í borginni Christchurch í mars. Það sem er hins vegar ólíkt viðbrögðum stjórnvalda á Nýja Sjálandi er að þar á bæ var strax farið í að láta endurskoða skotvopnalöggjöfina þar í landi. 

Rúmlega 5.800 Bandaríkjamenn hafa dáið af skotsárum það sem af er árinu 2019.

Nánari umfjöllun um árásina og skotvopnalöggjöfina í Bandaríkjunum má sjá í spilaranum hér að ofan.