Nærri sextíu prósent barna byrja að nota netið fyrir tveggja ára aldur. Fyrir sex árum voru það tvö prósent barna. Þetta leiða niðurstöður rannsóknar í ljós. Íslenskuprófessor segir vísbendingar um að ítök enskrar tungu séu farin að hafa áhrif á málkunnáttu fólks með íslensku að móðurmáli.
Unnið hefur verið að viðamikilli rannsókn á áhrifum tæknibreytinga á stöðu og framtíð íslenskrar tungu og hve mikil áhrif enskunnar eru.
„Það eru að verða gífurlegar breytingar á málumhverfi, viðhorfi og málnotkun okkar Íslendingar, sérstaklega unga fólksins. Enskan í málumhverfinu er orðin svo miklu miklu meiri hjá börnum og unglingum,“ segir Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands.
Kannað var hversu snemma börn byrja að nota netið. 2013 byrjuðu 2% barna að nota netið fyrir þriggja ára aldur. En núna eru 58% barna byrja að nota tölvur og snjalltæki tveggja ára og yngri. „Og átta prósent þeirra byrjuðu að nota snjalltæki og tölvur fyrir eins árs aldur,“ segir Sigríður.
Þá var íslenskur hreimur skoðaður. „Þá kemur í ljós að það eru ung börn sem eru ekki byrjuð að læra ensku í skólum formlega en tala samt ensku næstum því lýtalaust, sem sagt eru ekki með neinn íslenskan hreim sem við eldra fólkið erum pottþétt með,“ segir Guðrún.
Þá er mun meira um það en áður að börn tali ensku sín í milli. Tuttugu og níu prósent sex til sjö ára barna tala stundum ensku við íslenskumælandi vini sína og fjörutíu og sjö prósent átta til níu ára barna.
Sigríður bendir á að málkunnáttan mótast á barnsaldri og núna sé enska afar fyrirferðamikil í umhverfi barna.
„Það eru svona vísbendingar um að þessar breytingar sem eru að verða og eru gífurlega örar séu jafnvel að hafa áhrif á málkunnáttu okkar í íslensku. Við þurfum að leggja megináherslu á börn og unglinga og einhvern veginn að auka íslenskuna í málumhverfi þeirra með spennandi efni á íslensku. Fyrir eðlilegan heilaþroska þarf maður að hafa móðurmálsfærni í einu máli og ef það næst ekki þá getur það haft alvarlegar afleiðingar,“ segir Sigríður.