Umsóknum um námslán hjá LÍN hefur fækkað um helming á síðustu tíu árum. Mennta og menningarmálaráðherra vonast til að gera stórtækar breytingar á lánasjóðinum á þessu þingi. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra segir að ýmislegt hafi áhrif, þar á meðal að ungt fólk búi lengur hjá foreldrum og hafi önnur úrræði.
Frá 2009 til 2019 hefur lánaumsóknum hjá sjóðnum fækkað úr 14.614 í 7.007. „Ég held að heimilin og margir hafi ábyrgari viðhorf gagnvart lántöku almennt. En að þessu sögðu þá er að hins vegar þannig að við viljum hafa jöfn tækifæri á íslandi, og þeir sem þurfa að taka lán og vilja mennta sig að þeir geti það“.
Íslenskir námsmenn taka frekar norræn lán
„Ég vil auðvitað að lánasjóðurinn íslenski sé samkeppnisfær við þá norrænu. Staðreyndin er sú að íslenskir námsmenn, ef þeir eru að læra á Norðurlöndunum, þá hafa þeir frekar verið að taka lán hjá norrænum lánasjóðum. Það er ákveðin áhætta fólgin í því, í fyrsta lagi er áhætta á spekileka, að fólk setjist þá frekar að annars staða. Í öðru lagi þá er auðvitað fólk að taka erlent lán og það er áhætta fólgin í því fyrir heimilisbókhaldið,“ sagði hún.
Fjárveitingar til LÍN milljörðum umfram þörf
Þá hafa fjárveitingar til sjóðsins á undanförnum árum verið rúmlega sex milljarðar umfram þörf. Því sé nú tækifæri til að gera heildarendurskoðun á starfsemi LÍN og verður það gert með nýju frumvarpi ráðherra. Því er ætlað að styðja við þarfir námsmanna og barnafjölskyldna með sveigjanlegri lánum og styrkjum.
Lilja segir mikilvægt að hefja fyrirhugaðar breytingar á lánasjóðnum sem allra fyrst. „Það er búið að bíða eftir þessum breytingum í talsvert langan tíma og þetta eru löngu tímabærar breytingar til að styðja við stöðu íslenskra námsmanna“.