Allir níu forsetaframbjóðendurnir sátu fyrir svörum í Speglinum. Fimm dagar eru þar til landsmenn ganga að kjörborðinu og kjósa sér nýjan forseta. Forsetakosningar verða laugardaginn 25. júní. Hlusta má á útsendinguna hér að ofan.
Skynsamlegt að horfa til reynslunnar
Davíð Oddsson leggur áherslu á að reynslan skipti miklu máli þegar kemur að því að velja forseta. Hann var spurður að því hvort ekki væri eðlilegt að hleypa nýjum kynslóðum að forsetaembættinu. Hann sagði að það væri ekkert óeðliegt að hann fengi slíka spurningu. Menn yrðu bara að vega og meta það.
„Ég hef hins vegar sagt að ef menn vilja keppa eftir reynsluleysinu þá þá er úr miklu úrvali að velja. Ef það er hins vegar reynslan þá eru um færri að ræða. Ég helda að það sé ekki skynsamlegt miðað við þær aðstæður sem eru í landinu og reyndar víðsjár víða í heiminum, uppnám í Evrópu og víðar og mikil umskipti í okkar þingi þá tel ég nú nauðsynlegt að horfa meira til reynslunnar heldur en oftast áður," sagði Davíð Oddsson.
Eitt fyrsta verk Sturlu Jónssonar ef hann verður kjörinn forseti er að leggja fram frumvarp um afnám verðtryggingar og jafnvel að skipa nýja ráðherra og reka aðra. Hann hélt fast við það að þetta væri á valdi forseta. Þetta stæði á svörtu og hvítu í stjórnarskránni.
Áætlun um að opna kafbátastöð í Hvalfirði
Ástþór Magnússon vill að Ísland verði land friðarins. Hann ætlar að beita sér fyrir því að höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna verði fluttar til Íslands og að Reykjavík verði miðstöð friðarviðræðna.
„Við Íslendingar eigum að stöðva stuðning okkar við bandaríska hernaðarstefnu. Við eigum að segja að það sé nóg komið. Við eigum að segja nei við því að aftur verði byggðar upp bandarískar flotastöðvar. Þeir eru að opna stöðina í Keflavík og þeir eru líka með áform um að opna kafbátastöð í Hvalfirði," sagði Ástþór Magnússon.
Virkja vitið og viskuna
Halla Tómasdóttir benti á að þjóðfélagið hefði orðið fyrir skaða í hruninu og að við yrðum að draga lærdóm af því.
„Ég held að besta leiðin til að byggja aftur upp traust, horfa til framtíðar og byggja upp það samfélag sem við viljum búa í sé að virkja vitið, viskuna og kraftinn í þjóðinni sjálfri," sagði Halla Tómasdóttir.
Guðni Th. Jóhannesson hefur sagt að forseti eigi að hafa hliðsjón af því sem vel er gert og þó að forseti hafi skoðanir eigi hann ekki að skipa sér í lið. Hann var spurður hvort forseti geti þóknast öllum.
„Nei, hann á ekki að stefna að því. Því að sá eru aumur sem enginn hnjóðar, segir máltækið," sagði Guðni. Hann sagðist finna stuðning meðal fólks við þetta sjónarmið að forsetinn eigi að vera sameiningarafl og standa utan fylkinga og flokka.
Hildur Þórðardóttir var spurð að því hvernig forsetinn ætti að beita sér fyrir því að stjórnarskráin sem stjórnlagaráð samþykkti kæmist í gagnið.
„Ég lít svo á að forsetinn sé sameiningartákn þjóðarinnar. Hann sé málsvari lýðræðis og samfélagsumbóta. Hann er öryggisventill fólksins gagnvart Alþingi og boðberi friðar í heiminum. Sem málsvari lýðræðis í landinu þá finnst mér að forsetinn geti talað fyrir nýju stjórnarskránni," sagði Hildur Þórðardóttir.
Umhverfismál stærsta utanríkismálið
Andri Snær hefur sagt að umhverfismál séu stærsta utanríkismálið. Hann benti á að þetta væri langstærsti málaflokkurinn og að Íslendingar ættu allt undir að umhverfismálin væru í lagi.
„Og Íslendingar er í kjöraðstæðu til að vera leiðandi rödd í umhverfismálum, að minnsta kosti rödd sem hreyfir við stórþjóðunum," sagði Andri Snær.
Baráttumála Guðrúnar Margrétar Pálsdóttur er að forsetinn standi meðal annars árlega fyrir góðgerðarviku. Hún segist líka sjá fyrir sér að komið verði á góðgerðarsjóði.
Elísabet Jökulsdóttir var spurð um beitingu málskotsréttarins. Hún benti á að í nýju stjórnarskránni væri kveðið á um málskotsrétt þjóðarinnar.
„Mér finnst hins vegar hættulegt að það sé einn maður, það er að segja forsetinn, sem eigi að beita málskotsréttinum," sagði Elísabet Jökulsdóttir.