30 ár eru í dag liðin frá því að Þjóðarsáttarsamningarnir svokölluðu voru undirritaðir. Það var föstudaginn 2. febrúar 1990 sem þeir Ásmundur Stefánsson forseti Alþýðusambands Íslands og Einar Oddur Kristjánsson formaður Vinnuveitendasambands íslands undirrituðu kjarasamning á almennum vinnumarkaði, samning sem þótti marka tímamót í samskiptum samtaka launafólks og atvinnurekenda.
Mikil verðbólga og óstöðugleiki höfðu einkennt íslenskt efnahagslíf árum og áratugum saman, en með þjóðarsáttarsamningunum, sem kváðu á um hóflega launahækkun, tókst að hemja verðbólguna og við tóku ár með efnahagslegum stöðugleika sem Íslendingar höfðu varla kynnst áður.
Á þessum tíma sat við völd samsteypustjórn Framsóknar, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Borgaraflokks undir forsæti Steingríms Hermannssonar. Ríkisstjórnin, Bændasamtökin og fleiri komu að samningunum, sem voru ekki óumdeildir í þjóðfélaginu. Andstæðingum mörgum hverjum fannst launafólk þurfa að fórna of miklu og að kostnaðurinn væri allur á herðum þess. Harðvítug átök urðu á milli forystumanna Bandalags háskólamanna hjá ríkinu, sem töldu sig illa svikna, og þáverandi fjármálaráðherra Ólafs Ragnars Grímssonar í kjölfar samninganna.