25 ár eru í dag frá því snjóflóð féll á Súðavík með þeim afleiðingum að 14 manns létust, þar af átta börn. Þetta er eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar. Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavíkurhreppi, segir að það hafi verið þungt fyrir marga að heyra af snjóflóðinu á Flateyri í fyrrakvöld. Þeim sem þurfi bjóðist áfallahjálp, einnig þeim sem lentu í snjóflóðinu 1995, auk þess sem kirkjan í þorpinu verði opin í dag.

Flóðið sem féll á Súðavík fyrir 25 árum var um 400 metra breitt og féll um klukkan hálf sjö að morgni mánudagsins 16. janúar 1995, þegar flestir voru enn í fastasvefni. 18 íbúðarhús urðu fyrir flóðinu sem og sjö hús sem hýstu fyrirtæki eða stofnanir. Fjórtán létu lífið og um tíu slösuðust. Tólf var bjargað upp úr flóðinu; þeim síðasta, tólf ára dreng, tæpum sólarhring eftir að það féll. Á fjórða hundrað björgunarsveitarmanna tók þátt í björgunaraðgerðunum á Súðavík. 

Landsmönnum bárust fyrst tíðindin af snjóflóðinu klukkan 10:40 sama dag. Þá voru liðnir liðlega fimm tímar frá því að snjóflóðið féll.  

Flóðið var reiðarslag fyrir samfélagið og ekki síst fyrir fjölskyldur þeirra sem fórust. Ein hjón misstu öll börn sín þrjú. Í öðru húsi fórust móðir og dóttir og í öðru móðir og tvær dætur. Faðir þeirra og eiginmaður konunnar bjargaðist ásamt einni dóttur þeirra. Ein hjón fórust. 

Bragi Þór Thorodssen sveitarstjóri segir að eftir flóðið hafi verið metið hagkvæmara að færa byggðina á öruggt svæði í stað þess að reisa snjóflóðavarnargarð fyrir ofan þorpið. Á sjötta tug nýrra húsa var reistur undir Kofra. 

Bragi var í viðtali á Morgunvaktinni í morgun spurður að því hvort samkoma hefði verið í bænum í gær eða þeim veitt sálræn aðstoð sem þurftu og vildu. Bragi segir að lítið hafi verið um bjargir undanfarna daga vegna þess að þorpið hafi verið lokað af bæði um Súðvíkurhlíð og Djúpið. „Það var bara fólkið sem var á staðnum sem tók þau samtöl. Ég veit að það hefur verið mjög þung stund fyrir marga að upplifa í gær. Hins vegar barst mér símtal þar sem það stendur til að tryggja það að þeir sem fóru á mis við slíka þjónustu á sínum tíma og telji sig hafi þörf fyrir hana verði vonandi að einhverju leyti tryggð.“

Bragi Þór segir að gert sé ráð fyrir að sett verði í gang sérstakt teymi fyrir Vestfirðinga í samvinnu við áfallahjálparteymi Rauða krossins. Tveir komi til Súðavíkur og hægt verði að leita til þeirra.

Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, sóknarprestur í Súðavík, segir að kirkjan verði opin í dag og þangað geti þeir leitað sem vilja. Hún telur að veðrið að undanförnu ýfi upp minningar hjá mörgum. Hún segir að íbúar minnist snjóflóðsins með því að fara að minnisvarðanum og kveikja á kertum. Fólk hafi fundið fyrir mikilli samkennd síðustu daga. 

 „Þetta er engin skipulögð stund. Fólki er boðið að koma og ég hugsa að það henti betur fyrir marga. Að það sé partur af þessu að geta verið í þessu athvarfi og þessu umhverfi. En hins vegar er þetta alltaf svolítið sérstakt, hvort einhver annar getur skipulagt slíka dagskrá fyrir fólk, ég veit það ekki. Auðvitað er vert að minnast þess með hlýjum hug sjálfur og þeim sem fórust hérna og þeirra sem áttu um sárt að binda sem hafa sjálfsagt verið flestir hér í þorpi,“ segir Bragi. 

Í Guðríðarkirkju í kvöld verður helgistund þar sem þess minnst að 25 ár eru liðin frá snjóflóðinu í Súðavík. Séra Karl V. Matthíasson, sr. Leifur Ragnar Jónsson og sr. Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands þjóna fyrir altari. Helgistundin hefst klukkan 20.