Á aðventunni er rykið dustað af gömlum matarhefðum en eitt fornt lostæti er að gleymast og gæti átt eftir að hverfa. Siginn fiskur gerir tilkall til þess að fá inni í skötuveislum, og framleiðandi í Mjóafirði segir að best væri ef siginn fiskur eignaðist sinn eigin dag.
Það er ekki alltaf fært til Mjóafjarðar á aðventunni en veturinn hefur verið snjóléttur og heiðin er fær. Við ætlum að heimsækja útgerðina Haförn sem rekur fiskverkun á staðnum. Hún er smá í sniðum og þar gefur Sævar sér tíma til að framleiða siginn fisk. Fáir fást við það allt árið og hjallurinn er vandlega staðsettur í fjöruborðinu. „Maður sækir í það að hengja fiskinn yfir sjó. Því það er alltaf hreyfing á loftinu aðeins af sjónum og þá signar fiskurinn eða þornar miklu betur. Sjósiginn fiskur er náttúrulega sá albesti og þetta er svona það næsta sem maður kemst því,“ segir Sævar Egilsson, sjómaður og fiskverkandi í Mjóafirði.
Sæta kemur fram við verkunina
Fiskurinn er þunnildaskorinn og látið leka úr honum áður en hann er hengdur upp. Ef það er þurrkur nægir að hann hangi í fjóra daga en í vætutíð getur þurft heilan mánuð og þá verður bragðið sterkara. „Ef verkunin tekst vel kemur fram sæta í honum við þessa verkun og svo í raun þetta harðfiskbragð nema miklu sterkara af því að þetta er soðið. Og það hefur voða mikið að segja hvernig veðrið er hvernig gengur að verka þetta,“ segir Sævar.
Siginn fiskur er borðaður með hamsatólg og kartöflum eins og skata og saltfiskur en er allt öðruvísi á bragðið og ákveðið sport að prófa. „Eins og núna á jólaföstu. Skatan, það er löng hefð fyrir henni og þeir sem vilja hana ekki þá er það saltfiskur. Það gæti þá bara verið siginn fiskur líka fyrir þá sem vildu. Svo gæti verið bara sér dagur. Signi fisk dagurinn,“ segir Sævar.
„Alveg þvílíkt ef þetta myndi gleymast“
Hátt verð fyrir fiskinn ferskan á mörkuðum letur menn til að stunda vinnslu eins og þessa. „Maður hefur alltaf haldið það að þeir væru að deyja sem borðuðu þetta en það virðast alltaf koma einhverjir aðrir gamlir í staðinn. Þetta er eins og með hangikjötið og skötuna. Það er löng hefð fyrir þessari framleiðslu. Og það væri náttúrulega alveg þvílíkt ef þetta myndi leggjast af að menn héldu áfram að framleiða þetta,“ segir Sævar Egilsson, sjómaður og fiskverkandi í Mjóafirði.