„Svo fer ég að ræða þetta við sálfræðinginn minn og mörgum þykir þetta skjóta skökku við en þessi hugmynd um að taka þátt í þessari fitness keppni, sem ég gerði þarsíðustu helgi, verður til í samtali milli mín og sálfræðingsins,“ segir Daníel Gunnarsson sem hreppti silfurverðlaun í fitness keppni einu og hálfu ári eftir svokallaða magaermisaðgerð. Hann var gestur Mannlega þáttarins á Rás 1.

„Ég man ekki eftir mér öðruvísi en í yfirþyngd,“ segir Daníel. Frá aldamótum hefur hann prófað flesta megrunarkúra sem til eru og tekið öfgafull líkamsræktarátök. „Ég kalla þetta maníur. Maður fór í að borða allt of lítið og hreyfa sig allt of mikið,“ segir hann. „Það heldur enginn út eitthvað svona brjálæði.“ 

Íterkaðar megrunarmaníur 

Í fyrra fékk hann veður af því að manneskja sem honum er nákomin hafi verið í svokallaða magaermisaðgerð. „Það sem gerist þá er að þá færist þetta nær mér.“ Hann hafði áður heyrt um slíkar aðgerðir en ekki leitt hugann að þeim neitt sérstaklega. „Svo fer ég að kynna mér þessar aðgerðir og geri það grundigt og ákveð að fara í það sem er kallað magaermisaðgerð.“ 

Að sögn Daníels er 80% magans fjarlægður í aðgerðinni. „Það hefur í för með sér að maður getur borðað mjög lítið og verður rosa lítið svangur.“ Hann segir þann hluta magans sem framleiðir hungurhormónið ghrelin fjarlægðan.  

Mikilvægt að hlúa að hinu andlega jafnt sem hinu líkamlega 

„Ég finn að það er margt búið að breytast í líkamanum,“ segir Daníel. Hann segir það merkilegt hve fljótur líkaminn sé að jafna sig. „Þetta er inni í manni og maður er bara kominn á lappir daginn eftir.“ Það þarf að gæta vel að mataræði fyrstu vikurnar eftir aðgerðina. „Fyrst er það bara fljótandi, svo maukað og svo hægt og rólega tekur þú inn fasta fæðu eftir það.“  

Það er þó ekki aðeins hið líkamlega sem þarf að huga að heldur einnig hið andlega. „Ég sem sagt ákveð bara að ætla að taka þetta föstum tökum og strax eftir aðgerð byrja ég í sálfræðimeðferð og er rosa heppinn með sálfræðing sem er bæði klínískur sálfræðingur og heilsusálfræðingur og íþróttaálfur.“ 

Sambandið við mat byggt á skökkum forsendum 

„Ég hef prófað ýmislegt. Allskonar kúra og prógrömm fyrir matarfíkla og ég tengi lítið við það,“ segir Daníel. Eftir aðgerðina fór hann að vinna í sambandi sitt við mat með sálfræðingi. „Ég kemst að ýmsu í þessari sálfræðimeðferð.“ 

„Samband mitt við mat er byggt á skökkum forsendum og búið að vera það lengi,“ segir Daníel. Hann segist hafa fengið ákveðna lífshamingju úr mat og hafa verið reiðubúinn til að sætta sig við ýmislegt svo lengi sem hann fengi eitthvað gott að borða reglulega. „Það var mjög óhollt fyrir mig og svona óhollt mynstur í kringum það búið að vera mjög lengi.“ 

Daníel segir sálfræðimeðferð, stuðning frá heimilislækni, þjálfun hjá sjúkraþjálfurum og einkaþjálfurum að ógleymdum stuðningi vini og ættingja hafa hjálpað sér mikið. „Það voru allir bara með, að ég ætla að gera þetta og gera eins vel og ég gæti.“ 

Niðurrif og neikvæð formerki hjálpuðu ekkert 

Í kjölfar aðgerðar og sálfræðimeðferðar fann hann fyrir mun í hugarfari hjá sér. Hann segist hafa stundað líkamsrækt áratugum saman en viðhorf hans til hreyfingar var breytt. „Þessi breyta að ég er hingað kominn til að megra mig, hún er farin,“ segir hann.  „Ég kom alltaf og hugsaði ég er hingað kominn til að megra mig eða ég þarf að koma hingað til að leggja af, þessi niðurrifs og þessi neikvæðu formerki af því að fara í ræktina.“  

Hann segist oft hafa stundað líkamsrækt á röngum forsendum á árum áður. „Annað hvort var maður mættur til að refsa sér af því að maður hafði étið of mikið eða berja sig áfram til að missa þessi kíló sem endalaust voru að þvælast fyrir manni.“ Þetta hafi ekki verið farsælt viðmót. „Finndu þér eitthvað sem þér finnst skemmtilegt.“ 

Persónulegur sigur að standa á sviðinu 

Daníel finnst skemmtilegt að mæta í ræktina með góða tónlist og lyfta. Hann hefur stundað líkamsræktarstöðvar frá aldamótum og á svipuðum tíma urðu svokölluð Fitness líkamsræktarmót vinsæl. Þau eru jafnan haldin á Akureyri þar sem Daníel er alinn upp. „Bærinn fylltist alltaf af súkkulaðibrúnum kroppum tvisvar á ári.“  

Daníel segir vaxtaræktakappa hafa reglulega sprottið upp á líkamsræktarstöðvum og hann hafi stundum hugsað um að hann langaði að taka þátt. „Svo fer ég að ræða þetta við sálfræðinginn minn og mörgum þykir þetta skjóta skökku við en þessi hugmynd um að taka þátt í þessari fitness keppni, sem ég gerði þar síðustu helgi, verður til í samtali milli mín og sálfræðingsins.“ 

„Við ákveðum að nota keppnina, bæði undirbúninginn og núna það sem ég er að gera eftir mót, til að halda áfram að vinna með sjálfan mig og hausinn á mér,“ útskýrir Daníel. „Þetta er búið að vera mjög áhugavert ferli, sérstaklega í aðdraganda að mótinu. Þetta er alltaf svolítið erfitt.“ 

Daníel hafnaði í öðru sæti á keppninni en segir tilganginn með mótinu ekki endilega hafa verið að vinna. „Ég sagði það alltaf, ég er að fara til að taka þátt en ég er ekki að fara að keppa.“ Hann segist hafa tekið þátt fyrir sjálfan sig og sigurinn hafi verið fólginn í því að standa uppi á sviði. „Ég upplifi rosalega sterkt persóunlegan sigur þegar ég kem út af sviðinu, búinn að framkvæma pósu rútínuna og alla stælana, þá var þetta svolítið yfirþyrmandi tilfinning,“ segir hann. „Shit ég gerði þetta!“ 

Rætt var við Daníel Gunnarsson í Mannlega þættinum á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.