Blóðug orrusta stendur við borgina Bakmút í Donbas í Austur-Úkraínu. Rússar sækja hart að borginni og hundruð falla á hverjum degi. Bardagarnir líkjast að sumu leyti skotgrafarhernaði fyrri heimsstyrjaldarinnar. Rússar hafa hert sóknina með herliði sem var flutt frá Kherson og þarna eru einnig málaliðar í hinum svokallað Wagner-hópi. Ofursti í sænska hernum segir bardagana um Bakmút mjög harða.

Heimsglugginn

Rætt var um þessa orrustu í Heimsglugganum á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Svíar fylgjast mjög vel með stríðinu í Úkraínu og Joakim Paasikivi ofursti í sænska hernum sagði í viðtali við sænska ríkissjónvarpið að þarna væri hart barist. Rússar hefðu sent fjölda hermanna á Bakmút vígstöðvarnar, margir þeirra væru illa útbúnir og margir lítt þjálfaðir. Úkraínumenn hefðu staðist árásirnar þó að þeir hefðu þurft að hörfa sums staðar í fyrir fram undirbúnar varnarlínur. Í frétt Guardian segir að flestir 70 þúsund íbúa Bakmút séu flúnir.

Norsk málefni; pólitík, smygl og norska „ríkið“

Ný könnun sýnir að Verkamannaflokkurinn nýtur minna fylgis en nokkru sinni í sögunni en Hægri flokkur Ernu Solberg er með umtalsvert meira fylgi.

Norskir tollarar eiga í vandræðum með smygl á landamærunum við Svíþjóð, ástæðan er að þegar landamærin voru lokuð í faraldrinum fór fólk að nota fáfarna vegi og slóða í gegnum skóga í landamærahéruðunum þar sem eftirlit tollsins er lítið sem ekkert. Talið er að smygl hafi stóraukist þó að miklu minna af áfengi hafi verið gert upptækt. 

100 ár frá stofnun Vinmonopolet

Norskir halda upp á að 100 ár eru liðin frá því að Vinmonopolet, norska Ríkið, var stofnað. Ástæðurnar fyrir stofnun þess eru mjög svipaðar og á Íslandi, Norðmenn ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að banna sölu á áfengi og kom bannið til framkvæmda 1914. Viðskiptalönd í Suður-Evrópu neyddu Norðmenn til að hætta við vínbann og þá var lausnin að láta hið opinbera fá einkarétt á áfengissölu. Norðmenn fluttu mikið af fiski út til þjóða í Suður-Evrópu og þær sögðu einfaldlega að til að halda áfram fisksölu yrðu Norðmenn að kaupa vín af þeim. Áfengiseinkasalan var lausnin á því að hægt væri að gera verslunarsamninga við þessar þjóðir. Fyrst var bara selt vín í ríkinu og smá koníak.

Brexit í breska þinginu

Brexit hefur eiginlega verið tabú í pólitískri umræðu í Bretlandi undanfarin misseri en þó hefur það skotið upp kollinum allra síðustu vikur í tengslum við harðar efnahagsaðgerðir sem stjórnin hefur boðað, aðhald í ríkisfjármálum og skattahækkanir. Margir hafa bent á að þessar aðgerðir hefðu tæpast ekki verið nauðsynlegar ef Bretar hefðu verið áfram í Evrópusambandinu, Brexit kostaði eitt og sér fjögurra prósenta samdrátt í þjóðarframleiðslu.

Samningur við Japan ekki skilað árangri

Fríverslunarsamningur sem gerður var við Japan fyrir tveimur árum hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Liz Truss gerði þennan samning er hún var ráðherra utanríkisviðskipta. Hún hampaði samningnum mjög og sagði hann til marks um tækifæri sem fælust í Brexit og myndi stórauka viðskipti og útflutning til Japans. Raunin er að vöruútflutningur Breta til Japans hefur dregist saman um fimm prósent frá því að samningurinn var gerður og þeir hafa dregist aftur úr öðrum stórum efnahagsveldum heims.

Blackford tók Brexit upp í fyrirspurnatíma forsætisráðherra

Ian Blackford, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins í breska þinginu tók þetta upp í fyrirspurnatíma forsætisráðherra í gær og sagði að Brexit væri fíllinn í herberginu sem hvorki Íhaldsflokkurinn né Verkamannaflokkurinn vildu tala um, hvenær yrði forsætisráðherra tilbúinn að viðurkenna að Brexit væri stór þáttur í efnahagskrísu Breta. Svör Sunaks köfnuðu raunar í hlátri þingmanna þegar hann sagði að Brexit hefði gert Bretum kleift að ráða eigin landamærum og aðflutningi fólks.

Meirihluti Breta telur Brexit hafa verið mistök

Blackford hjó áfram í sama knérunn og benti á að ný skoðanakönnun Yougov sýndi að 56 prósent kjósenda teldu það hafa verið ranga ákvörðun að yfirgefa Evrópusambandið, meir en 70 prósent Skota væru sömu skoðunar. Tuttugu prósent þeirra sem kusu Brexit sæju eftir því og æ fleiri sæu að yfirlýsingar um að tækifæri fælust í Brexit væri innantóm slagorð. Blackford spurði:

Ætlar forsætisráðherra loks að tilkynna Skotum að þeir megi kjósa um sjálfstæði í lýðræðislegum kosningum til að losna við yfirráð Westminster-veldisins svo sjálfstætt Skotland geti aftur gengið í Evrópusambandið?

Rishi Sunak svaraði eins og enskir ráðamenn gera nánast alltaf með því að vísa í þjóðaratkvæðagreiðsluna 2014 þegar Skotar höfnuðu sjálfstæði. Hann virti þá lýðræðislegu niðurstöðu.

Afstæð tímaskynjun

Í lokin var rætt um afstæða tímaskynjun. Samkvæmt rannsókn John Moores háskólans í Liverpool og birt er í vefritinu The Conversation skynjar fólk tímann mismunandi eftir aldri, eftir sem fólk eldist finnst því tíminn líða hraðar. Það sé ástæðan fyrir því að börnin finnist biðin eftir jólunum ærið löng á meðan eldra fólki fyndist tíminn á milli jóla líða æ hraðar.