Sandra Sigurðardóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, segir umræðu um mannréttindabrot og hvernig hallar á réttindi samkynhneigðra í tengslum við HM karla í Katar vera högg í magann fyrir þá baráttu. Vonandi leiði það hins vegar til sterkari viðbragða í kjölfarið.

„Það þarf að ræða þetta. Það þarf að gera eitthvað í þessu. Ég er vissulega mjög vonsvikin með FIFA og hvernig það er að starfa. Í fyrsta lagi að taka þessa ákvörðun að mótið sé haldið þarna, og sé að setja stopp á ákveðna baráttu hjá fólki í heiminum, íþróttum og almennt,“ sagði Sandra í Silfrinu í dag.

Réttindi samkynhneigðra hefur verið mikið í umræðunni í tengslum við mótið. Meðal annars bannaði FIFA fyrirliðum að bera fyrirliðabönd til stuðnings baráttu samkynhneigðra, vegna þess að mótið er haldið í Katar. Þar er samkynhneigð bönnuð með lögum.

„Þetta er högg í magann fyrir þessa baráttu, að þetta sé gert svona. Að það sé verið að banna þessi í rauninni litlu atriði en samt svo stór fyrir þessa baráttu. Það eru allir reiðir og maður sér að leikmenn á mótinu eru ósáttir, en eru að vanda sig að segja ekki neitt til að vera ekki refsað. En ég held að í framhaldinu verði þetta til þess að baráttan verði sterkari,“ sagði Sandra Sigurðardóttir í Silfrinu í dag.