Gefin röng lyf á hjúkrunarheimilinu
Móðir Ingibjargar Rósu Björnsdóttur er með alsheimerssjúkdóminn og býr á hjúkrunarheimili. Ingibjörg Rósa birti grein á Vísi í síðasta mánuði þar sem hún lýsti aðbúnaði á hjúkrunarheimilinu. Lýsingin er vægast sagt slæm. Stuttu eftir að móðir hennar flutti á hjúkrunarheimilið datt hún og rifbeinsbrotnaði. Þegar systir Ingibjargar Rósu kom til hennar þremur dögum síðar sá hún starfsmann toga móður hennar upp úr stól. Hún benti starfsmanninum á að aðeins væru þrír dagar frá því að hún slasaðist.
„Þú veist að hún er rifbeinsbrotin. Þá leit hann á hana og sagði Guð minn góður ég var að baða hana í morgun og ég hafði ekki hugmynd um að hún væri rifbeinsbrotin. Af hverju mætir starfsmaður, sem hefur kannski verið í helgarfríi, eða kynnir sér ekki hvað er búið að gerast um helgina? Það er eins og það vanti samskipti á milli vakta. Tékka á hvað er að.”
Ingibjörg Rósa segir að móðir hennar hafi verið á hjúkrunarheimilinu í nokkrar vikur áður en starfsmaður á deildinni áttaði sig á að hún væri með alsheimers. Á hverri deild eru 11 íbúar og ekki allir með heilabilun, hvað þá sömu heilabilun.
„Við enduðum sjálf á að prenta út og plasta upplýsingar um mömmu og það gerðist trekk í trekk að við komum þarna og hún var klædd en ekki vel klædd,” segir Ingibjörg Rósa. Að sögn hennar er móðir þeirra í skítugum fötum og þess ekki gætt að hún drekki nógu mikið sem er sérstaklega mikilvægt fólki með heilabilun þar sem þorstatilfinningin vill hverfa.
„Það grátlega er að á þessu tímabili líka hefur það gerst að mamma mín fékk röng lyf og það á ekki að geta gerst. En auðvitað gerist það ef þú ert með starfsfólk að gefa kvöldmat og gefa kvöldlyfin og það kannski þekkir ekki allt fólkið. Það er kannski sagt: Sigga á að fá þetta lyf og þú réttir rangri mannsekju hreinlega af því að þú veist ekki hver Sigga er. Annars veit ég ekki hvernig þetta gerðist. Sem betur fer var þetta ekki hættulegt þannig séð. Hefði getað verið verra. Þetta var ekki þannig lyf. En auðvitað þurfti að skola því út sem fyrst þannig að það var setið við og hún látin drekka nokkur vatnsglös. Þegar við komum og hittum á hana þá var búið að gefa henni sex vatnsglös á tveim tímum. Sem var bara frábært því hún hefur ekki verið sprækari frá því hún fór þarna inn. Þá sáum við hvað það skiptir miklu máli að hún fái nægjanlega vökvun af því þú tapar niður svo miklu. Bæði hún spjallaði meira og hún gat hreyft sig meira. Hún var styrkari. Já ég á ekki til orð yfir þetta,” segir Ingibjörg Rósa Björnsdóttir í sjötta þættinum af Lífið eftir vinnu, að eldast á Íslandi sem var á dagskrá Rásar 1 á föstudag.