Ofbeldi er að aukast í fangelsum, segir Garðar Svansson, trúnaðarmaður Fangavarðafélags Íslands. Ofbeldið milli fanga eykst en einnig ofbeldi sem beinist gegn fangavörðum.

Hnífstunguvesti standa fangavörðum ekki til boða vegna fjárskorts. Á sjöunda tug sitja nú í gæsluvarðhaldi og kallar það á mikla skipulagninu. Erfitt er að manna vaktir.

„Við sjáum bara aukið ofbeldi í fangelsunum. Þetta er mikill höfuðverkur, mikið álag. Ég get sagt ykkur að álagið er þannig að það útskrifuðust 25 nemendur úr fangavarðaskólanum síðasta vor, það eru fimm af þeim hættir. Þetta er ungt fólk, álagið er of mikið,“ segir Garðar.

Gamlar illdeilur fanga ná síðan inn fyrir fangelsin og suma fanga er ekki hægt að hafa í sömu rýmunum á sama tíma. Garðar segir að allir fangar eigi rétt á útivist, þjónustu, samtölum við vini, ættingja og lögfræðinga. Skipulagið verður að vera mikið, segir hann. 

„Þetta eru hópar sem mega ekki hittast vegna fyrri deilna og þvíumlíkt þannig það kallar á annað vandamál.“

Áður sagði að Garðar væri Svavarsson en ekki Svansson eins og rétt er. Beðist er velvirðingar á þessu.