Myndbönd sem sýna hnífaárásina á Bankastræti Club, sem birt voru í fjölmiðlum í gær, koma úr gagnagrunni lögreglunnar. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, lítur málið grafalvarlegum augum og hefur falið héraðssaksóknara að rannsaka málið.
„Þetta virðist vera tekið upp með síma af tölvuskjá, og það virðist vera sem svo að þetta sé tölvuskjár frá lögreglunni,“ segir Grímur, en á myndbandinu sést glitta í það sem virðist vera LÖKE, málaskrárkerfi lögreglunnar.
„Ég held ég geti fullyrt það að svona hafi bara ekki gerst áður, að rannsóknargögnum sé lekið til fjölmiðla með þessum hætti,“ segir Grímur.
Myndskeiðin fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum og rötuðu þaðan til fjölmiðla.
Hvaða afleiðingar getur þetta haft á rannsókn málsins?
„Leki á trúnaðargögnum getur að sjálfsögðu skemmt fyrir rannsókn, já. En hvort það hafi gerst í þessu tilfelli er eitthvað sem við eigum eftir að meta.“
Þá hafi þetta að líkindum afleiðingar fyrir þann sem lak gögnunum og að rannsóknin muni væntanlega snúa að broti í opinberu starfi. Grímur sagðist aðspurður ekki geta svarað því hvort hægt sé að rekja í gegnum tölvukerfi lögreglunnar hvaðan lekinn kom.
Málið verði alfarið á forræði héraðssaksóknara.