Eftir 12 ára ásakanir og deilur, hneyksli og reiði hefst hún á sunnudaginn, fyrsta heimsmeistarakeppnin í fótbolta sem haldin er í arabísku og múslimsku landi. Jón Björgvinsson, fréttaritari RÚV, heimsótti Katar, smáríkið sem lagt hefur allt í sölurnar til að þessi ótrúlega áræðni gangi upp.
Hún er eins dýr og hún er umdeild. Þrjátíu og tvö þúsund milljarða króna á þessi veisla að kosta, þrjátíu og tvöföld fjárlög íslenska ríkisins þótt þjóðirnar séu í grunninn jafn fámennar og landið lítið stærra en Vestfjarðakjálkinn. Enda engu til sparað. Jafnvel nýja neðanjarðarlestin í höfuðborginni Doha er búin lúxusvagni með skjá við hvert sæti en það sem kemur okkur kannski spánskara fyrir sjónir er þetta, karlar sitja hér í einum vagni og konur í öðrum, við erum jú á meðal strangtrúaðra múslima.
Öfugt við erlendu verkamennina sem byggðu þessu herlegheit býr katarska þjóðin, sem sjálf er aðeins rétt rúmlega 10 prósent íbúanna í Katar, við glæsilegan húsakost og lúxuslífsstíl sem ekki er auðvelt að fá að mynda.
En Al Saegh fjölskyldan tekur Jóni Björgvinssyni, fréttaritara RÚV, þó opnum örmum, eins og sjá má í spilaranum hér að ofan. Jah, að vísu bara karlmennirnir, því konurnar fá þeir hvorki að mynda né ræða við. Þeir segjast stoltir yfir heimsmeistarakeppninni, hryggir yfir gagnrýninni og óhræddir við menningarárekstra þegar þeir fá þessa eftirsóttu heimsókn með ólíkar hefðir.
„Ef útlendingur kemur og drekkur áfengi fyrir utan knattspyrnuleikvanginn þá var mér kennt af föður mínum að líta ekki illa á það. Ég mun virða hann án þess þó að herma þetta eftir honum,“ segir Saoud Al Hadad.
Knattspyrnuunnendur geta sem sagt fengið sér áfengi á nokkrum vel völdum stöðum en þó ekki inni á sjálfum leikvöngunum. Eins og undir þessu risa bedúínatjaldi. Samtals hafa 8 slíkir loftkældir leikvangar sprottið hér upp með nokkurra kílómetra millibili. Í sögu heimsmeistarakeppninnar hefur aldrei verið jafn stutt á milli þeirra. Og hér virðist ekki horft fram hjá neinu atriði til að minnsta kosti fótboltahliðin fari vel fram.
„Þetta dýrasta partí sögunnar og líka eitt það umdeildasta er loks að bresta á hér í Doha, en hvernig verður mætingin og hversu umburðarlyndir verða þessir strangtrúuðu múslimar þegar hingað mæta fáklæddir og frjálslyndir djammarar úr vestri ? Ja, það veit Allah einn. En eins og líka er sagt lengra í norðri þegar allt er að fara úr böndunum: Þetta reddast,“ segir Jón Björgvinsson.
„En til að sjá betur hvernig þessu er reddað á bak við tjöldin þarf ég að fara með myndavélina í leyni út í eyðimörkina þar sem grasið í þessa fótboltavelli er ræktað í vin sem vökvuð er af stanslausum straumi vatnsflutningabíla með vatni sem hreinsað er úr sjó. Rautt skilti segir að hér sé stranglega bannað að mynda svo grasið fæ ég ekki að sjá en ég stel í staðinn nokkrum myndum af uppsprettu allra þessara auðæfa, olíu- og gasvinnslunni. Það er ekki mikið auðveldara að bæði finna og ná myndum af nýju listaverki Ólafs Elíassonar. Það var sett upp hér í auðninni í aðdraganda heimsmeistarakeppninnar og til að komast að verkinu þarf að ganga góðan spöl um eyðimörkina eftir að hafa stolist hér yfir háa girðingu.“
Sjónvarpsfrétt Jóns Björgvinssonar frá Katar má sjá í spilaranum hér að ofan. Nánar verður fjallað um Katar og heimsmeistaramótið í fréttaskýringaþættinum Heimskviðum sem er á dagskrá Rásar 1 eftir hádegisfréttir á morgun, laugardag.