Það hillir undir lokin á rannsókn Samherjamálsins á Íslandi, nú þremur árum eftir að hún hófst. Héraðssaksóknari segir COVID hafa tafið málið mikið.
Málið hér hófst sem kunnugt er með afhjúpun Kveiks og fleiri miðla 12. nóvember 2019. Strax í kjölfarið hóf Héraðssaksóknari rannsókn, sem snýst um meint peningaþvætti, auðgunarbrot og hundraða milljóna mútugreiðslur til Namibíumanna til að koma höndum yfir þarlendan kvóta að andvirði milljarða.
Beðið eftir gögnum
Héraðssaksóknari segir rannsóknina langt komna. Nú sé aðallega beðið eftir gögnum að utan, að uppistöðu frá Namibíu.
Þannig að það hillir undir lokin á þessu?
„Já, við vonum að það sé nú endir á þessu en það er vert að taka það fram að svona rannsóknir taka mjög langan tíma erlendis og náttúrulega hérna líka. Þarna er um að ræða stórt og viðamikið mál og mikið af gögnum. En já, við vonumst til þess að ljúka þessu bara fljótlega upp úr því að við fáum gögnin að utan,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Sakborningarnir orðnir níu
Sex höfðu framan af réttarstöðu sakbornings við rannsóknina hér heima, þeirra á meðal forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson, en þeim hefur síðan fjölgað og eru nú níu, samkvæmt því sem sagði í ítarlegri úttekt Stundarinnar fyrir helgi.
Tafir á rannsókninni hafa sætt gagnrýni hér heima og erlendis.
„Þrjú ár er langur tími í rannsókn, já, vissulega, en þess eru nú dæmi að stór og flókin mál taki langan tíma í rannsókn. Auk þess hefur covid sett mjög stórt strik í reikninginn hjá okkur og meðal annars tafið mjög að við höfum komið á fundum með yfirvöldum í Namibíu,“ segir Ólafur, og nefnir að fundur með Namibíumönnum sem tókst loks að halda í maí hafi verið settur á dagskrá átta mánuðum áður.
Auk þessa er Skatturinn með rannsókn í gangi sem snýr að yfirráðum yfir aflandsfélögum og varðar, samkvæmt Stundinni, mörg hundruð milljónir króna.
Innanhússrannsóknin aldrei gerð opinber
Samherji fékk strax í upphafi norsku lögmannsstofuna Wikborg Rein til að gera innri rannsókn á málinu.
„Við viljum fá aðila til að skoða málið, koma með niðurstöðu og kynna það í heild sinni,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, þá starfandi forstjóra Samherja, í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í nóvember 2019. „Sú niðurstaða verður kynnt og yfirfarin og málið þá bara lagt í dóm.“
Niðurstaðan lá fyrir í júlí í fyrra en skýrslan hefur enn ekki verið birt í heild. Hún hefur ekki heldur verið afhent yfirvöldum og fundur Wikborg Rein með Héraðssaksóknara sem Samherji boðaði ekki farið fram.
Skella skuld á uppljóstrarann
Forsvarsmenn Samherja hafa frá upphafi skellt allri skuld á mögulegum óeðlilegum greiðslum fyrirtækisins í Namibíu á uppljóstrarann Jóhannes Stefánsson. Hann hefur á móti bent á að hann hafi bara staðið að um 20 til 30 prósentum af þeim greiðslum sem kallaðar hafa verið mútur og að slíkar greiðslur hafi haldið áfram um skeið eftir að hann hætti störfum.
Og rannsóknin hefur einnig teygt sig til Noregs. Í fyrravor var DNB-bankinn þar í landi sektaður um jafnvirði sex milljarða fyrir slælegt eftirlit með peningaþvætti, meðal annars í viðskiptum tengdum Samherja.
Samhliða þessu öllu hefur farið fram rannsókn í Namibíu, ráðherrar hafa sagt af sér og verið handteknir ásamt mörgum öðrum. Tíu sæta nú ákæru í málinu, sem er í biðstöðu fyrir dómi og allir hafa setið í gæsluvarðhaldi um langa hríð.