Viðamikilli lögregluaðgerð sem fór fram í nótt lauk með því að leiguflugvél hélt af landi brott til Aþenu. Í fréttum í gærkvöldi kom fram að hópur hælisleitenda yrði sendur til Grikklands í dag. Talið er að einhverjir úr þeim hópi hafi verið í vélinni. Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir fréttamaður RÚV og Kristján Þór Ingvarsson tökumaður fylgdust með aðgerðunum í nótt.

Magnús Davíð Norðdahl lögmaður staðfestir í samtali við fréttastofu að þremur hælisleitendum, sem eru umbjóðendur hans, hafi verið vísað úr landi í nótt þrátt fyrir að niðurstaða kærunefndar útlendingamála í málum þeirra hafi verið handan við hornið. Hann segir málinu ekki lokið.

Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um samsetningu hópsins sem var í vélinni og hvorki hefur náðst tal af dómsmálaráðherra né Útlendingastofnun.

Útlendingastofnun – lögreglustöð – hótel – flugvöllur – Aþena

Þrjár rútur lögðu af stað frá Útlendingastofnun. Lögreglumenn íklæddir gulum vestum voru í tveimur þeirra en sú þriðja virtist mannlaus utan ökumanns.

Eftir viðkomu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík lá leiðin að hóteli í Hafnarfirði þar sem fólk var tekið upp í rútuna. Útlendingastofnun hefur haft hótelið á leigu fyrir hælisleitendur. Þaðan var farið á Keflavíkurflugvöll. Ekki var farin hefðbundin leið gegnum brottfararsal flugstöðvarinnar.

Vélin hélt af landi brott klukkan tíu mínútur yfir fimm í n og lenti í Aþenu um klukkan hálf ellefu.

Flóðljósum beint að tökumönnum

Starfsmenn Isavia beindu flóðljósum í átt að myndavél tökumanns RÚV, að því er virðist til að hann gæti ekki náð myndum af því sem fram fór inni á vellinum. Í eitt skiptið var ljósum fjögurra bíla Isavia beint út fyrir hliðið í átt að tökumanni, og þegar hann færði sig til gerðu starfsmenn Isavia það einnig.

Í svari Isavia við fyrirspurn fréttastofu í morgun sagði að starfsmenn hefðu fylgt hefðbundnu verklagi sem er beitt þegar vart verður mannaferða við völlinn. Fjölmörg dæmi eru þó um að fjölmiðlar taki myndir utan við flugvallarsvæðið að nóttu til án þess að höfð séu afskipti af því. Svar Isavia var síðar dregið til baka og ný yfirlýsing boðuð. Hún hefur enn ekki borist.