Lögregla krafðist þess að komið yrði í veg fyrir myndatökur af lögregluaðgerð á Keflavíkurflugvelli í nótt, þar sem fimmtán hælisleitendum var vísað úr landi. Í tilkynningu frá Isavia segir að starfsfólk Isavia hafi fylgt fyrirmælum lögreglu, en það sé ekki hlutverk starfsfólks að hindra störf fjölmiðla. Isavia harmar að það hafi gerst í nótt og biðst afsökunar á því.

„Samræmist ekki grundvallargildum lýðræðissamfélaga“

Ekkert myndefni náðist því af því sem fram fór á flugvellinum. Á tímapunkti var ljósum fjögurra bíla beint að myndavélinni - og þegar tökumaður færði sig gerðu starfsmenn Isavia slíkt hið sama.

Valgerður Anna Jóhannsdóttir, lektor í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, lítur atvikið alvarlegum augum. „Ef okkur er einhver alvara með því að fjölmiðlar séu einn af hornsteinum lýðræðis og að aðhaldshlutverk þeirra sé mikilvægt að þá er þetta ekki það sem við viljum sjá. Þetta bara samrýmist ekki grundvallargildum lýðræðissamfélaga,“ segir Valgerður. 

Með grófari og alvarlegri dæmum 

Að mati Isavia er það ekki hlutverk öryggisgæslu flugvallarins að hindra störf fjölmiðla - og Isavia segist í tilkynningunni harma að það hafi gerst og biðst afsökunar.

Valgerður segir atvikið eitt það grófasta sem hún muni eftir. „Það er örugglega ekki fordæmalaust að það sé reynt með einhverjum hætti að hindra aðgang fréttamanna eða gera þeim erfiðara fyrir að sinna störfum sínum en þetta hins vegar finnst mér vera með grófari og alvarlegri dæmum sem maður hefur séð. Auðvitað eru þetta umdeild mál. Þetta eru umdeildar aðgerðir en það verður ekki leyst með því að koma í veg fyrir að almenningur fái að sjá hvað er að gerast,“ segir Valgerður.