Faðir ríkislögreglustjóra gat ekki gert grein fyrir á fjórða tug vopna þegar húsleit var gerð heima hjá honum í tengslum við rannsókn á svokölluðu hryðjuverkamáli. Þá fékk hann aldrei réttarstöðu sakbornings þrátt fyrir vitnisburð um að hann hefði selt frá sér breytt ólögleg vopn í skiptum fyrir reiðufé.
Þurft að segja sig frá málum vegna vanhæfni
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði sig frá rannsókn á hryðjuverkamálinu vegna tengsla föður hennar, Guðjóns Valdimarssonar, við málið. Guðjón er þekktur byssusmiður og selur vopn á vefsíðu sinni, vopnasalinn.net.
Húsleit var gerð heima hjá honum í lok september og heimildir fréttastofu herma að þar hafi fundist hátt í fjörutíu óskráð skotvopn, sem Guðjón hafi ekki getað gert grein fyrir. Hann var hins vegar ekki handtekinn og lögregla veitir engar upplýsingar um hvaða stöðu hann hefur í málinu.
Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Sigríður Björk hefur þurft að segja sig frá rannsókn því árið 2018 kom nafn Guðjóns föður hennar upp í tengslum við rannsókn á meintu vopnalagabroti manns sem reyndist vera með breytt vopn í vörslum sínum. DPMS riffil, sem búið var að breyta í hálfsjálfvirkan riffil.
„Og þá beinist rannsóknin eingöngu að því hvort kaupandinn hafi gert það sem hvorki kunni það né hafði tæki og tól í það eða aðgang að íhlutum sem þurfti. En vopnasalinn hann var bara yfirheyrður sem vitni,“ segir Einar Gautur Steingrímsson, verjandi mannsins sem sætti ákæru vegna vopnalagabrotsins.
Ljóst að einhver annar breytti vopninu en ekki rannsakað hver
Svo fór að hinn grunaði í málinu var sýknaður í Landsrétti enda tókst ekki að sanna að hann hefði breytt vopninu. Og þar með var málinu lokið. Ekki var rannsakað hvort Guðjón hefði breytt vopninu eða hvort það hefði komist í hendur annars - og þá hvers - sem þar af leiðandi hefði framið vopnalagabrot með því að breyta byssunni.
„Það er með öllu óskiljanlegt að sá sem selur byssu, sem reynist búið að breyta, sé ekki andlag rannsóknarinnar og sá sem kaupir af honum. Sá sem getur breytt vopninu hann er ekki rannsakaður heldur sá sem ekki gat það,“ segir Einar Gautur og furðar sig á vinnubrögðum lögreglu.
Yfirheyrður á heimili sínu og staðfestir að hafa ekki gefið út reikning
Guðjón var þó yfirheyrður vegna málsins en það var gert á heimili hans í Hafnarfirði, ekki á lögreglustöðinni, og hvergi í gögnum málsins eru upplýsingar um hvers vegna yfirheyrslan fór fram heima hjá honum.
Þá hefur fréttastofa gögn sem sýna að sakborningurinn í fyrrnefndu máli hafi greint frá því að hann hafi borgað Guðjóni 1500 þúsund krónur fyrir riffilinn - í reiðufé. Aldrei hafi verið gefin út kvittun eða reikningur fyrir kaupunum og voru þar af leiðandi ekki gefin upp til skatts. Guðjón staðfesti það að hluta við skýrslutöku, eða að viðskipti hefðu farið fram með reiðufé, fyrir 700 þúsund krónur.