Viðburðir sem þessir eru nauðsynlegir og hjálpa innflytjendum að aðlagast samfélaginu, segir pólsk móðir sem mætti á opið hús hjá Fæðingarheimili Reykjavíkur í gær. Ein af stofnendum Fæðingarheimilisins segir að það sé mikilvægt að bæta aðgengi að þjónustu fyrir þennan hóp. 

„Þegar við byrjuðum með heimasíðuna okkar ákváðum við að hafa upplýsingar á íslensku, ensku og pólsku. Þannig að það má vel vera að það verði haldið síðar á ensku líka,“ segir Embla Ýr Guðmundsdóttir ljósmóðir. 

Fæðingarheimilið var opnað í byrjun október og þar er lögð áhersla á að þjónusta allar konur og allar fjölskyldur, óháð efnahag eða uppruna. Embla Ýr er ein ljósmæðranna sem stóðu að rannsókn sem leiddi í ljós að útkoma fæðinga er lakari hjá konum af erlendum uppruna en íslenskum. Fjallað var um rannsóknina í Kastljósi fjallaði um í síðustu viku.  

Fæðingarheimilið er í samstarfi við þrjár konur af pólskum uppruna. Paulina Kołtan-Janowska er dúla sem heldur fæðingarundirbúningsnámskeið á pólsku. Katarzyna Żukow-Tapioles, sálfræðingur og kynfræðingur, býður upp á ráðgjöf og fræðslu um barnsburð og kynfræði og síðast en ekki síst heldur Alicja Pawlak ljósmóðir brjóstagjafarnámskeið. Fyrsta námskeiðið var í október og  það næsta hefst í desember. „Á námskeiðinu fjalla ég einnig um hvernig á að sjá um nýbura fyrstu sólarhringana eftir fæðingu,” segir Alicja.

Um tuttugu pör mættu á viðburðinn ásamt fleiri Pólverjum sem hafa áhuga á málefninu. Agata Brzezińska og Dominik, maðurinn hennar, sóttu námskeið hjá Paulinu. Lilja dóttir þeirra fæddist á Landspítalanum fyrir fjórum vikum. 

„Það er mikilvægt að hitta fólk í svipaðri stöðu, konur sem eru barnshafandi og pör með lítil börn og mynda einhvers konar samfélagstengsl. Það er almennt erfið staða að vera innflytjandi og þess vegna er svona frumkvæði, og viðburðir af öllu tagi, mjög vel þegið að okkar mati. Við getum kynnst íslenskum ljósmæðrum. Þannig samlögumst við samfélaginu held ég.”