Unnið hefur verið að áhættumati á afleiðingum þess ef tjón yrði á báðum sæstrengjunum sem tengja Ísland við umheiminn. Þriðji strengurinn verður tekinn í notkun á næsta ári. Mánuður er frá því skemmdarverk voru unnin á gasleiðslum í Eystrasalti. Guðmund Arnar Sigmundsson, sviðsstjóri hjá Fjarskiptastofu og forstöðumaður netöryggissveitarinnar CERT-IS, segir fjarskiptasamband Íslands við umheiminn er ekki í sérstakri hættu nú.
„Það er engin sérstök ástæða til þess að segja að þær séu í sérstakri hættu núna. Hins vegar eru þetta einu tengibrautir okkar við meginlandið, við umheiminn, hið alþjóðlega internet. Þannig að það er alveg ástæða til þess að yfirfara. Og það er það sem er búið að vera að gera, að meta í rauninni óháð áhættunni, hverjar yrðu afleiðingarnar ef eitthvað kæmi fyrir þessa strengi alla í einu. Það er vinna sem búin er að fara fram frá vormánuðum,“ segir Guðmundur Arnar í samtali við Morgunútvarpið.
Hvað myndi gerast ef einn þeirra færi út, myndu hinir ráða við álagið?
„Já, já, alveg léttilega. Gagnamagnsþörf okkar Íslendinga er mikil en við erum fá. Einn strengur myndi einn og sér alveg léttilega anna þessari gagnamagnsþörf Íslendinga á einum degi,“ segir Guðmundur. Hann segir að til að tryggja öryggi séu sæstrengirnir fleiri en einn.
Þriðji strengurinn í notkun í vor
„Við erum með tvo virka nútímalega strengi, Farice og Danice. Annar fer frá Íslandi til Danmerkur og hinn fer frá Íslandi til Skotlands. Netumferð Íslands til útlanda fer fyrst og fremst í gegnum þessa strengi. Síðan er búið að leggja nýjan streng, Irice. Hann er ekki kominn í gagnið en við reiknum með að hann komist í gagnið snemma á vormánuðum á næsta ári og verður gífurleg búbót fyrir Ísland, bæði hvað flutningsgetu varðar og hvað okkar margumtalaða öryggi okkar varðar.“ Með þessum þremur strengjum náist þrefalt öryggi í tengingum við Evrópu.
Netumferð flyst sjálfkrafa af rofnum streng yfir á annan
„Ef einn strengur myndir rofna, sem er alveg sviðsmynd sem er reiknað með í öllu þessu ferli og Farice sem eiga og reka þessa kapla eru með leiðbeiningabæklinga um hvernig á að bregðast við rofi. Ef einn strengur myndi rofna þá yrði netumferð sjálfvirkt endurreiknuð, hvernig þessir internetpakkar fara frá landinu. Það myndi bara færast af þessum slitna streng yfir á strengi sem eru í lagi. Farice myndi virkja sína ferla. Þeir borga sérstaklega fyrir aðgengi að sérstökum viðgerðaskipum sem þurfa að koma sér á svæðið. Þeir þurfa að fiska upp báða enda sem eru slitnir, tengja þá saman aftur og laga kapalinn. Þetta er viðgerð sem er ekki óeðlilegt að taki kannski nokkrar vikur að klára. Þetta er líka háð náttúrulegum aðstæðum eins og veðri. Þess vegna er þessi tvöfeldni. Þess vegna er verið að leggja áherslu á að fá þriðja kapalinn til þess að lágmarka líkurnar á því að við lendum í þeirri aðstöðu að fleiri en einn eða tveir strengir séu slitnir á sama tíma vegna bilana eða einhvers sem myndi koma upp og valda því að strengirnir myndu rofna,“ segir Guðmundur.
Þarf mikið til til að rjúfa svona streng? Virkar það ef kafbátur leggur sprengju ofan á strenginn og hann er farinn í sundur?
„Já, þetta er nýja spurningin sem allir eru að spyrja sig núna. Ég er svo sem ekki sprengjusérfræðingur. En ég veit að kaplarnir eru varðir í hönnuninni. Kaplarnir sjálfir eru bara þunnir sem liggja inni í stórum og þykkum streng sem er með einhverjum skermingum og vörnum sem eru vafðar utan um kapalinn. En eftir það tekur ekkert við. Kapallinn er bara lagður niður á hafsbotn og liggur þar. Og það er ekkert annað sérstakt sem er að verja hann. Þannig að já, ég myndi gefa mér það að ef einhver er með réttu tól og tæki ætti að vera tiltölulega einfalt mál að rjúfa strenginn.“ Kapalinn sé nokkrir sentimetrar í þvermál.
Skemmdarverk á nokkrum erlendum sæstrengjum
„Við höfum séð dæmi um það erlendis að strengir hafa verið klipptir í sundur. Það var bara í síðustu viku klipptur í sundur sæstrengur sem tengist við meginland Frakklands. Þetta eru kallaðir bakburðarstrengir. Þeir eru gífurlega margir. Það eru rúmlega 500 svona strengir sem tengja saman heimsálfurnar, Afríku, Evrópu, Asíu og Ameríku. Þeir voru bara klipptir í sundur. Það er búið að staðfesta það að þessi árás var skemmdarverk. Það er ekki búið að eigna neinum gjörninginn. En þetta hefur gerst. Gerðist í Frakklandi í síðustu viku, þetta gerðist við Hjaltlandseyjar í vikunni á undan. Þetta gerðist við streng milli Noregs og Svalbarða fyrr í vor. Þannig að þetta er enn ein vísbending þess að við þurfum að taka alvarlega þessa áhættu að mögulega er gerlegt með réttum búnaði, en flóknum búnaði samt, að mannlegur ásetningur getur valdið því að einhver getur farið og klippt í sundur strenginn. Hvað okkur varðar hérna við Íslandsstrendur, þá er vernd sæstrengja í hafi á borði Landhelgisgæslu. Við erum ekki eina þjóðin sem er að velta þessu fyrir okkur. Það eru fleiri þjóðir sem eru algjörlega háðar sæstrengjum í hafi varðandi internetsamband. Finnar eru gott dæmi. Ég held að allar tengingar til Finnlands fari í gegnum hafið nema einn kapall sem liggur í gegnum Rússland og er ekki talinn jafn öruggur í dag. Landhelgisgæslan hefur ýmsar leiðir til þess að nálgast aðstoð frá útlöndum til þess að tækla þessa spurningu: hvernig pössum við strengi okkar í hafi?,“ segir Guðmundur.