Gísli Eyjólfsson var að vonum sáttur eftir að hafa fagnað Íslandsmeistaratitlinum í Kópavogi í kvöld.
"Ég held þetta sé besti dagur lífs míns," sagði Gísli og hélt fyrir eyru dóttur sinnar. "Kannski þegar hún fæddist líka. En þetta eru tveir bestu dagar lífs míns."
Gísli ræddi annað hlutverk sitt í ár, en hann spilaði dýpra á vellinum en áður.
"Mér leið hrikalega vel í allt sumar. Það komu alveg tímapunktar þar sem ég vildi alveg skora. Ég hef saknað þess að skora, en ég hef ekki saknað þess að tapa."
Þá ræddi Gísli einnig muninn á liðinu milli ára og hversu sérstök tilfinningin er að fagna Íslandsmeistaratitli á heimavelli.
"Ef þú lítur í kringum þig sérðu að allur Kópavogur er hérna að fagna með manni. Það er svo gaman þegar það er svona mikill stuðningur. Umgjörðin í kringum Breiðablik er búin að batna hrikalega milli ára. Þetta er bara sturlað, ég er orðlaus."