Breyting hefur orðið á andlegri líðan barna og ungmenna hér á landi síðustu tíu ár. Þó flestir unglingar segi að þeim líði vel, þá hefur þeim fjölgað sem greina frá því að þeim líði illa á sálinni.

Þetta kemur fram í langtímarannsóknum Rannsóknar og greiningar. Umræða um einelti, hörku og ofbeldi í samskiptum barna og ungmenna hefur verið hávær að undanförnu. Hver er þáttur samfélagsmiðla og snjalltækja?  Eru foreldrar og fullorðnir góðar fyrirmyndir í háttvísi og góðum siðum?

Ingibjörg Eva Þórisdóttir er doktor í sálfræði og sérfræðingur hjá Planet Youth, íslensku fyrirtæki sem vinnur að því að innleiða hið íslenska forvarnarmódel Rannsóknar og greiningar erlendis.

Breytingar á síðustu 10 árum

„Við erum búin að fylgjast með þessari þróun í andlegri líðan núna í áratugi" segir Ingibjörg. „Árin 2012 og 2013 fórum við að sjá breytingar þar sem að ungmenni eru að greina frekar frá andlegri vanlíðan heldur en áður og þá sérstaklega stelpur. Sú þróun hefur haldið áfram. Í Covid og eftir Covid eykst andleg vanlíðan hjá stelpum og strákum og það hefur ekkert breyst. Þó við séum að horfa upp á að samfélagsgerðin sé að verða svolítið eins (og fyrir Covid) þá hefur andleg vanlíðan ekki stillt sig af þannig að þau séu að greina frá eins og þau gerðu fyrir Covid". 

Börn tengdari við umheiminn en áður

Hver er orsökin fyrir þessu? 

„Þetta er flókin spurning. Það er ofboðslega margt sem að vegur í andlegri líðan okkar. Við vitum t.d. að með því að sofa vel þá getum við stuðlað að góðri andlegri líðan. Eins með því að borða hollt og hreyfa okkur, allir þessir grunnþættir sem við getum stjórnað sjálf.

Svo eru aðrir hlutir í okkar í lífi. Við erum tengd hvort öðru. Við erum tengd inn í samfélagsgerðina, inn í alheimssamfélagið. Við horfum upp á hlýnun jarðar, loftslagskvíða og stríð í heiminum. Börn eru náttúrulega tengdari heldur en áður".

Samskiptin breyst með samfélagsmiðlum

„Svo getum við horft nær okkur líka, það er breytt samfélagsmynstur og þar geta samfélagsmiðlar vissulega komið inn í. Við horfum upp á að samskiptin hafa breyst, ferlar eins og félagslegur samanburður, óttinn við að missa af eða annað sem að verður ýktara með tilkomu samfélagsmiðla vegna þess að við sjáum meira hvað aðrir eru að gera. Félagslegur samanburður er ekki bara við jafningja okkar í skólanum heldur líka við jafningja í öðrum skólum sem líta út fyrir að vera allt öðruvísi. Það geta verið breytt samskipti almennt".

Foreldrar setja síður reglur

„Við sjáum að jafningjasamskipti hafa breyst gríðarlega með tilkomu snjalltækja sérstaklega þar sem fleira fer fram í gegnum samfélagsmiðla. Þar má nefna nánd við félagana, að fá stuðning frá vinum og treysta vinum sínum. Þessir hlutir geta að sjálfsögðu breyst.

Og svo getum við horft upp á foreldrana og foreldrasamskiptin. Við sjáum að börn greina síður frá því að foreldrar setji strangar reglur á heimilum. Það virðist vera einhver losarabragur gagnvart börnum og reglum. Hvaða áhrif hefur það á samskipti, eftirlit og annað? Þetta er flókið og erfitt að benda á eitthvað eitt. Ég held að allir þessir þættir saman geti verið hluti af skýringunni. 

Vísbendingar um að ekki sé allt með felldu

Hvernig lýsir þessi vanlíðan sér? 

„Við sjáum hjá okkur úr gögnum Rannsóknar og greiningar á Íslandi, aukin einkenni depurðar og kvíða sérstaklega hjá stúlkum. En svo eru að sjálfsögðu aðrar vísbendingar eins og t.d. aukin sjálfsskaðahegðun og auknar hugsanir um sjálfsskaða. Svo vitum við líka að það er miklu meira álag og eftirspurn og langir biðlistar eftir þjónustu. Það eru vissulega vísbendingar um að ekki sé allt með felldu". 

Flókið að vera foreldri

Þú nefndir þarna foreldra og hlutverk þeirra. Nú hafa komið upp á undanförnum vikum erfið eineltismál sem hafa verið opinberuð. Eru foreldrar í dag verri fyrirmynd en þeir voru áður? 

„Ég held að foreldrar í dag séu- ég get bara sagt fyrir sjálfa mig - með gríðarlega miklar kröfur á sig sem foreldrar. Fólk vinnur mjög mikið alla jafnan. Það eru alls kyns ráðleggingar um hvað þú átt að gera og hvað ekki. Þú átt ekki að setja boð og bönn. Þú átt ekki að segja nei. Þú átt samt ekki að hitt og ekki þetta. Það er mjög flókið að vera foreldri í þessum heimi".

Ljót hegðun fullorðinna á samfélagsmiðlum

„En á sama tíma sjáum við alveg að fullorðið fólk, hvort sem það er foreldrar eða ekki, leyfir sér alveg ofboðslega skaðlega og ljóta hegðun á samfélagsmiðlum. Og kannski í samskiptum almennt. Eitthvað sem við höfum ekki vanist í okkar samfélagi. Að þú setjir fram einhverja skoðun og þá átt þú bara von á að vera tekinn af lífi eða að farið verði í þína persónu sérstaklega vegna þess að fólk er ósammála þér".

Erfitt að stoppa eitthvað sem ekki sést

„Ef við tökum þetta hræðilega eineltismál sem svo sannarlega er ekkert einsdæmi. Í öllum skólum hefur verið einhver umræða um Snapchat, hvenær eigi að leyfa það og það séu slæm samskipti þar inni. Foreldrar vita þetta alveg en samt er verið að leyfa þetta. Það er ofboðslega erfitt að stoppa eitthvað sem þú sérð ekki". 

Gerendur þurfa aðstoð

„Ef við horfum á það sem fullorðið fólk leyfir sér að segja í kjölfarið; vegna þess að við erum með þolendur í eineltismálum, en svo erum við líka með gerendur. Gerendur þurfa alveg eins mikla aðstoð og þolendur.

Svo erum við með fullorðið fólk sem leyfir sér að hafa ofboðslega ljót orð um gerendur sem eru enn þá bara börn, eiga eftir að þroskast og eiga eftir að vera hluti af okkar samfélagi í langan tíma. Við þurfum að hugsa sem samfélag hvernig við viljum koma í veg fyrir svona mál. Hvernig viljum við byggja upp okkar einstaklinga þannig að þú sért nógu sterkur til þess að taka ekki þátt í slíku athæfi".

Snýst um samvinnu foreldra

„Langflestir foreldrar vilja börnum sínum það allra besta og vilja grípa inn í. En það er náttúrulega erfitt ef við vitum ekki hvað er að gerast. Ég held að þetta snúist um fræðslu og að hún sé aðgengileg. Að við komum þessum upplýsingum til skila, hjálpumst að. Að við leyfum ekki miðla fyrir tiltekinn aldur.

Við getum hjálpast að við að kenna börnunum okkar góð samskipti. Þetta snýst í raun allt um samveru foreldra. Þetta mál sem hefur komið upp núna er mjög slæmt af því að þetta er mjög stór hópur og ekkert foreldri virðist hafa haft vitneskju um þetta. Það er kannski það sem kemur á óvart. Erum við kannski alveg hætt að tala saman sem foreldrahópur?" 

Óttast ekki siðrof

Óttast þú að það sé að verða einhvers konar siðrof í samfélaginu? 

„Nei, ég óttast það ekki. Ég held hins vegar að við þurfum að fara að grípa í taumana og ákveða hvernig samfélag við viljum byggja. Og það þurfa allir að hafa rödd. Við erum lítið samfélag, en fjölbreytt. Við höfum horft upp á tæknibreytingar og við þurfum að nýta þær til góðs. Við þurfum ekkert að segja að samfélagsmiðlar séu alvondir".

Þurfum að sýna tillitssemi

„En kannski þarf fólk að stoppa sig og spyrja áður en það ætlar að láta eitthvað svakalegt flakka: þarf ég að skrifa þetta? Þó svo að þér líði illa og langi til að hamra á lyklaborðið í einhverri reiði. Eða ef einhver misbýður þér svo svakalega með skoðunum sínum,  þá þarftu ekkert endilega að gera athugasemd. Við gætum fært okkur betur inn í málefnalega umræðu, kurteisi, virðingu gagnvart náunganum og aðgát. Við vitum ekkert hvað allir eru að ganga í gegnum og þurfum ekkert að vita það til þess að geta sýnt tillitssemi" segir Ingibjörg Eva Þórisdóttir.