Jarðarbúar eiga langt í land með að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins, að halda hækkun hitastigs vel undir tveimur gráðum í lok aldarinnar. Þetta kemur fram í skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem kom út í dag. Verði ekki gripið til umfangsmikilla breytinga blasa hamfarir við
Verði ekki gripið til umfangsmikilla kerfisbreytinga í samfélögum heimsins, til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, blasi hamfarir við. Að óbreyttu stefnir í tveggja komma átta gráðu hækkun í lok aldarinnar. Draga þarf úr losun á heimsvísu um allt að 45% eigi að ná settum markmiðum.
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, var gestur í kvöldfréttum sjónvarps. Hann sagði afleiðingar hamfarahlýnunnar þegar farnar að koma fram. „Þessar hörmungar eru þegar komnar fram og á þessu ári hafa gengið yfir hörmungar sem eru raunverulega af mannavöldum. Sterkasta dæmið er Pakistan og ekki síður, svona nær okkur, Flórída. Þetta er þegar að koma fram þannig að þetta er ekki bara spurning um framtíðina. Þessi litli árangur sem er að nást leiðir til þess að það er alltaf þrengri og þrengri tími, miklu minni tími eftir. Þess vegna er eina færa leiðin úr því sem komið er að fara í mjög hraðar umfangsmiklar grundvallar breytingar. Það þarf að færa til mjög mikið fjármagn, þetta eru stórar upphæðir en þegar litið er á þetta þá er þetta innan við 2% af heildar fjármagninu. Þannig að þetta virðist vera eitthvað sem er gerlegt, seðlabankar skipta miklu máli og það þarf að endurhugsa fjármálakerfið. Þetta snýst mikið um það og miklu meira samstarf ríkja um lausnir.“
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna COP27, fer fram í Egyptalandi frá 6. til 18. nóveber. Halldór segir engar stórar ákvarðanir liggja fyrir fundinum. „Þess vegna mun þessi fundur beinast miklu meira að því að framkvæma samninginn. Það lauk allri útfærslu Parísarsamningsins í Glasgow á síðasta ári. Síðan verða þjóðarleiðtogar þarna fyrstu tvo dagana og það skiptir miklu máli hvaða skilaboð þeir senda. Þar er til dæmis litið sérstaklega til þess hvernig Kína mun beita sér. Það hefur lítið heyrst frá þeim. Síðan er mjög sterk undiralda sem tengist þessum hörmungum sem við vorum að tala um áðan því eitt af stóru málunum á þessum fundi er hvernig er hægt að koma á móts við þessar þjóðir sem eru að verða fyrir skaða.“
Antonio Guterres, Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tjáði sig um efni skýrslunnar frá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna í dag og sagði loftslagsmálin þurfi að vera í forgangi. „Loftslagsbreytingar eru áfram forgangsmál í öllu sem við gerum og þær verða að vera í forgangi hjá öllum ríkisstjórnum, fyrirtækjum, borgum, opinberu þjóðfélagi, alls staðar. Ef við náum ekki að snúa við núverandi þróun sem veldur hörmungum í heiminum erum við öll glötuð svo þetta verður að vera forgangsmál fyrir okkur öll.“