Leikfimikennari á Eskifirði óttast að rakaskemmt íþróttahús staðarins sé sýkt af heilsuspillandi myglu. Íbúum þykir húsið óboðlegt og dæmi eru um að foreldrar hafi tekið börn úr íþróttum vegna veikinda sem þeir rekja til myglu.

Íþróttahúsið á Eskifirði er komið til ára sinna og lítur illa út að innan sem utan. Valgeir íþróttakennari fylgir okkur um húsið og sýnir okkur verstu staðina.

„Í rauninni lak þakið hérna það mikið að það var hægt að fara í sturtu hérna. Og þarna. Það bara míglak þakið. Við óttumst að það sé mygla hérna í þakinu og að það sé alls ekki gott fyrir börnin hér á staðnum að vera í þessu dags daglega,“ segir Jóhann Valgeir Davíðsson, íþróttakennari á Eskifirði.

„Þegar lekinn kom um daginn, sem sést hér á veggjunum, þá var farið hér upp og svokallaðar laufsíur hreinsaðar sem voru að valda þessum leka sem þá varð. Þær fylltust af laufum sem olli því að það komst vatn undir dúkinn sem rann hérna niður. Nú er búið að hreinsa þær og í framhaldinu verður að fylgjast með því. Og svo verður farið í að skoða þakið nánar og þá í aðgerðir í framhaldi af því á þakinu sem þarf að laga,“ segir Þórður Vilberg Guðmundsson, forstöðumaður upplýsingamála hjá Fjarðabyggð.

Dæmi eru um að börn hafi fundið fyrir einkennum sem gætu verið vegna myglu. „Ég veit dæmi um það, já. Það hafa foreldrar tekið barnið sitt úr íþróttum hjá mér vegna heilsubrests og barnið hefur lagast eftir að það fór úr íþróttum hjá mér,“ segir Jóhann Valgeir. 

Það er ekki hægt að segja að útlitið á húsinu sé upplífgandi og naglar í gólfinum eru farnir að koma upp í gegnum dúkinn. Vatn hefur lekið inn í húsið lengi og mestu áhyggjurnar eru af myglunni sem þyrfti að rannsaka. „Ef þess þarf þá verður það gert. Við höfum verið að gera það víða og munum halda því áfram ef þess er talin þörf,“ segir Þórður Vilberg. 

Aðspurður um hvað hann vilji að sé gert svarar Jóhann Valgeir. „Eitthvað bara. Þakið lagað. Nýtt íþróttahús. Bara tekið alveg í gegn frá a til ö.“