Móður drengs sem tók þátt í að senda hatursfull skilaboð á annan dreng, og Kastljós sagði frá fyrir skömmu, var brugðið þegar hún komst að því að sonur hennar hefði gerst sekur um meiðandi athæfi. Hún segir son sinn ekki alinn upp við fordóma og hann hafi sýnt eftirsjá og beðið þolanda afsökunar. Hún kallar eftir auknu samtali í samfélaginu um samfélagsmiðla, ofbeldi og hatursorðræðu. Kastljós ræddi við hana í kvöld.

„Mér var náttúrulega brugðið og fannst skrýtið að hann skyldi vera að senda eitthvað svona þar sem hann er ekki alinn upp við fordóma,” segir móðir  drengsins.

 

Hún kemur ekki fram undir nafni því hún óttast afleiðingar þess fyrir son sinn ef hún þekkist. 

Hún segir að sonur hennar sé ekki fordómafullur en hann hafi ekki getað gefið neina skýringu á athæfi sínu. Henni þyki leitt að sonur hennar hafi valdið öðru barni og fjölskyldu þess vanlíðan.

Hún segir erfitt að horfast í augu við það þegar þjóðfélagið hafi stimplað barnið manns og vísar í umræðu um fréttir af því þegar sagt var frá hljóðupptökunni í Kastljósi fyrir stuttu.
 

 

Þetta eru ekki vondir krakkar

„Það var bara erfitt að sjá það og heyra,” segir hún. Þetta eru ekki vondir krakkar. Þeir sendu vissulega hræðileg skilaboð en þetta gerðist í einhverjum múgæsingi hjá þessum strákum, sem er auðvitað alveg hræðilegt.“ 

Hún segist hafa haft mikið eftirlit með samfélagsmiðlanotkun sonar síns en skilaboðin hafi ekki verið send úr hans síma og því hafi hún ekki vitað af þeim. 

Móðirin segir að þau foreldrarnir hafi verið í sambandi við foreldra þolandans og sonur hennar og þolandinn hafi talað saman. Drengur hennar sjái eftir því sem hann gerði og hafi beðist afsökunar.

„Við erum búin að vera í góðum samskiptum. Og það er búið að fyrirgefa af þeirra hálfu.“  

Syninum hótað barsmíðum

Spurð hver afleiðingin af því að þetta komst upp hafi orðið fyrir hennar dreng segir hún að hann hafi orðið fyrir aðkasti. Honum hafi verið hótað barsmíðum og hann eigi erfitt með að fara í skólann af ótta við að verða beittur ofbeldi.

Það hafi spurst út hverjir hafi sent skilaboðin og eldri drengir ætli að refsa þeim fyrir það, að sögn móðurinnar. Hún er ekki ósátt við að hljóðskilaboðin hafi verið birt opinberlega.

„Mér finnst alveg að þetta hafi þurft að koma fram, það átti að birta þetta hljóðbrot. En að aðrir hafi ætlað að verða einhverjir réttlætissinnar í þessu máli, það hefði mátt sleppa því.“

Mikilvægt að horfast í augu við ofbeldi barna

Benedikta Sörensen Valtýsdóttir, skólastjóri hjá Ofbeldisvarnaskólanum, segir það erfitt en mikilvægt skref fyrir foreldra að horfast í augu við brot barna sinna. Það verði erfiðara eftir því sem börnin eldast.

Engin ein rétt viðbrögð séu til við svona málum, en styðja þurfi við unga gerendur. „En stuðningur við unga gerendur felst ekki í því að segja að þetta sé allt í lagi. Við þurfum að styðja þau til að horfast í augu við það sem þau gerðu.“

Börn taka réttlætið í eigin hendur

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnisstýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur, segir það færast í vöxt að önnur börn telji sig þurfa að taka málin í eigin hendur þegar þeim finnst réttlætinu ekki fullnægt.

„Til dæmis þegar kemur upp kynferðisbrot og viðkomandi er ekki rekinn úr skólanum, þá upplifa þau að skólinn sé ekki að gera neitt. Þau finna reiði og grípa í það að leysa málin sjálf.“

Hún segir fullorðna fólkið þurfa að aðstoða við þetta. „Við þurfum að fækka þessum brotum og við þurfum að hjálpa börnunum okkar að takast á við þetta.“