„Hugmyndin kviknaði út frá því að við vorum að fá utanaðkomandi verkefni inn sem voru óstabíl og leiddu til þess að það var ekki vinna all daga. Vildum hugsa eitthvað sem kemur innan frá og við seljum út," segir Auður Margrét Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri í fangelsinu Hólmsheiði. Fangaverk er netverslun þar sem seldar eru vörur sem fangar á Hólmsheiði, Litla-Hrauni og Sogni framleiða. 

Á Hólmsheiði vinna fangar að listsköpun í sérstökum vinnustofum, fyrir og eftir hádegi. Inn á vinnustofunni eru allir jafnir. „Bara það að koma í rútínu, læra að mæta í vinnuna, sýna hvort öðru virðingu. Starfsandinn hér er geggjaður, allir að hjálpast að, allir eru vinir." 

Á Litla-Hrauni er unnið að ýmsum verkefnum líka, meðal annars á smíðaverkstæðinu þar sem er smíðað ýmislegt nýtilegt. „Þetta snýst um að skapa strákunum annríki. Hér eru strákar á meðferðargangi í vinnu líka, þetta skapar rútínu. Við fáum stuðning með aðföng. Við erum að reyna að gera strákana betri. Þetta snýst um það að vakna til einhvers. Þroska þetta samband hugar og handar. Koma betri menn út, það er svona mission hjá mér," segir Jón Ingi Jónsson, verkstjóri á smíðaverkstæðinu Litla Hrauni.