Gífurlega strangar öryggisreglur eru á vettvangi heimsmeistaramótsins í Fischer slembiskák. Það má segja að mótssvæðið sé í eins konar tímahjúp og áhorfendur þurfa að fylgja ströngum reglum.

Mótið er haldið hér á landi í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá því að Boris Spassky og Bobby Fischer mættust í úrslitaeinvígi heimsmeistaratitilsins í Reykjavík.

Skáksamband Íslands hefur unnið að undirbúningi í meira en ár samkvæmt Gunnari Björnssyni, formanni Skáksambands Íslands sem var til svara í viðtali við íþróttadeild RÚV.

Svindl hefur mikið verið í umræðunni í skákheiminum upp á síðkastið í kjölfar átaka Niemann og Carlsen um meint svindl Niemanns.

Fimm mínútna tímakúla

Keppnissalurinn er í sinni eigin tímakúlu þar sem allt sem gerist inni í salnum er seinkað um fimm mínútur utan salar. Bæði sjónvarpsútsending og allar upplýsingar sem birtast á skáksíðum birtast því ekki beint. Leikstaða í hverjum leik fyrir sig er því ekki birt fyrr en fimm mínútum eftir að teflt er. RÚV og norska ríkissjónvarpið NRK sýna beint frá mótinu.

"Ég var að segja starfsfólkinu að þau ættu að horfa á Back to the Future, þá myndu þau skilja þetta betur," sagði Gunnar léttur.

Teflt er í svokallaðri over-the-board skák, það er að segja staðbundin skák.

Frítt er fyrir áhorfendur að mæta á mótið sem haldið er á Reykjavík Natura hótelinu sem er hluti af Berjaya Iceland Hotels keðjunni. Flestir ættu að þekkja vettvanginn sem Hótel Loftleiðir.

Strangar reglur eru þó til staðar fyrir áhorfendur, og þurfa þeir að bíða í fimm mínútur í svokallaðri tímasóttkví þegar þeir yfirgefa svæðið.

Þá eru engir snjallsímar leyfðir á svæðinu, auk snjallúra og hvers kyns rafbúnaðar.

RÚV sýnir beint frá mótinu alla daga en því lýkur 30. október með úrslitaleik.

Alla dagskrá og reglur fyrir áhorfendur má finna hér.