Bændur í Skagafirði telja fjarskiptaöryggi víða um fjörðinn ótryggara nú en það var fyrir tuttugu árum. Byggðaráð Skagafjarðar hvetur yfirvöld til úrbóta, til þess að hægt sé að tryggja öryggi íbúa og ferðamanna.
Við bæinn Litlu hlíð og víðar í Skagafirði er ekkert farsímasamband og það sem verra er, er að ef verður rafmagnslaust eru bændur alveg sambandslausir. Yfirvöld hafa lofað bættu fjarskiptaöryggi á svæðinu árum saman.
„NMT-síminn hann hringdi bara úti í bíl ef það var áríðandi og maður gat keyrt hérna bara fram eftir öllu og alls staðar var NMT-samband. En það var sagt þá, að þegar þeir lokuðu því þá kæmi GSM og allt yrði miklu, miklu betra. Sem varð ekki miklu betra“ segir Marta María Friðþjófsdóttir, bóndi í Skagafirði.
Og hvað er komið langt síðan það var?
„Við ætlum að giska á 15-20 ár. Einhvers staðar þar á bilinu örugglega“.
Þurfa að keyra 12 kílómetra til að nota rafræn skilríki
Bændurnir Marta og Arnþór eru orðin ýmsu vön eftir að búa við skert fjarskipti í áraraðir. Þau þurfa til dæmis keyra yfir tíu kílómetra til þess að geta notað rafræn skilríki, til þess að komast inn á nauðsynleg forrit, Heilsuveru eða nýta heimbanka, en til þess þarf að hafa farsíma sem getur móttekið sms-skilaboð.
Verst þegar rafmagnið fer líka
Þau segja þó verst þegar rafmagninu slær út, þar sem þá missi þau bæði heimasímann og netsambandið og geti þá ekki kallað eftir aðstoð ef eitthvað bjátar á.
Er ekki pínulítið skrítið árið 2022 að það verði rafmagnslaust og þið getið ekki hringt?
„Jú, það er mjög skrítið. Og engin skilaboð og ekkert og maður veit ekki neitt. Það er eiginlega það sem er verst. Þegar við urðum stundum rafmagnslaus hérna fyrir mörgum árum síðan þá hringdi ég bara til Reykjavíkur og spurði, er eitthvað í fréttum? Þá vissu þau miklu meira heldur en við“ segir Marta.
„Og þau gátu sagt hvað þetta yrði trúlega lengi“ segir Arnþór Traustason, bóndi á Litlu Hlíð.
Já, þið hafið náttúrulega engar upplýsingar um það, hvað sé að gerast eða hversu lengi það varir?
„Nei. Veit ekkert hvort það er sveitalínan eða byggðalínan sem er úti“ segir Arnþór.