Karlalið Vals í handbolta hefur leik í riðlakeppni Evrópudeildarinnar annað kvöld. Valur tekur þá á móti ungverska liðinu Ferencvarós. Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals á sér þann draum að Valur komist upp úr riðlakeppninni. Valur er fyrsta íslenska félagsliðið síðan leiktíðina 2008-2009 til að keppa í riðlakeppni Evrópukeppni. Þá kepptu Haukar í Meistaradeild Evrópu.
„Við erum bara að fara út í alvöru Evrópukeppni með fullt af leikjum. Erfiðum leikjum, en skemmtilegum. Þetta eru klárlega bara forréttindi og maður finnur það að þetta er allt annað og öðru vísi en að spila deildarleik. Þú færð svona úrslitakeppnisfíling í liðið,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Valsmanna þegar hann ræddi við RÚV að Hlíðarenda í dag.
Auk Ferencváros eru Pays d'Aix frá Frakklandi, Flensburg frá Þýskalandi, Ystad frá Svíþjóð og Benidorm frá Spáni í riðlinum með Val. Leikið er í fjórum sex liða riðlum í Evrópudeildinni. „Þessi keppni teygir sig yfir lungað af tímabilinu. Auðvitað hefur þetta kannski einhver neikvæð áhrif. Ég veit það ekki. En það verður bara að koma í ljós. En fyrsti leikur er á morgun og bara um að gera að reyna að njóta þess og sjúga þetta aðeins í sig. Fyrir drengina, ég tala nú ekki um fyrir þá sem eru uppaldir hérna eða ungir, þá er stórt að fá að upplifa þetta. Því það er heldur ekkert víst að einhverjir af þessum strákum fari í svo stór lið að þeir muni spila aftur í svona keppni,“ sagði Snorri Steinn.
Snorri gerir ráð fyrir erfiðum leik annað kvöld við Ferencváros. „Þetta er algjört dúndur lið. Ég segi nú ekki að það hafi komið mér á óvart, en ég óttaðist það smá að þegar dregið var, að þetta væri sterkasta liðið úr þessum styrkleikaflokki. Þetta er bara mjög gott lið. Það eru þekkt nöfn á borð við [Maté] Lekai og [Zsolt] Balogh [ungverskir landsliðsmenn] í liðinu. En þeir eru bara með tvo, stundum þrjá sterka menn í hverri stöðu. Ungir gaurar með þessum eldri sem líta mjög vel út á myndböndum. Auðvitað er þetta annar líkamsburður en við eigum að venjast hérna heima. Við erum bara ekki þannig við Íslendingar að vera svona þungir og miklir. Það verður áskorun að aðlaga okkur að því að spila á móti þannig liði.“
Asnalegt að setja sér ekki markmið
Snorri Steinn sagði á blaðamannafundinum í dag að draumurinn væri að komast upp úr riðlinum. „Við þurfum þá að vinna einhverja leiki í þessum riðli. Ég hef svosem ekkert reiknað það út hvað við þurfum nákvæmlega til þess. Þetta er sex liða riðill og fjögur lið sem komast áfram. Ég veit ekkert nákvæmlega hverjir möguleikarnir eru. Það getur vel verið að þetta sé skot langt yfir markið hjá mér. En mér finnst asnalegt að fara inn í svona keppni og setja sér ekki markmið. Að sama skapi væri líka kjánalegt að ætla sér að verða í 5. sæti í riðlinum, þó það sé betra en 6. sæti. En við ætlum okkur bara upp úr riðlinum. En ég er alveg viðbúinn því að það verða veggir að klífa í þessari keppni. En við tökum þetta bara leik fyrir leik og sjáum svo til.“
Snorri lítur ekki aðeins svo á að Valur sé að keppa í þessari Evrópudeild. Hann lítur líka á Valsmenn sem sendiherra íslensks handbolta og úrvalsdeildarinnar hér heima. „Já, mér finnst það. Þetta er stórt próf bara fyrir íslenskt lið og fyrir deildina heima hvar við stöndum gagnvart einhverjum liðum úti í heimi. Mér finnst að við eigum að vera að máta okkur við aðrar deildir til þess að gera deildina okkar stærri og betri. Ef við viljum auka líkurnar á því að ungir leikmenn vilji vera hér heima og lengur, þá þurfum við að sýna fram á það að við getum staðið okkur á þessu sviði.“
25. október | Valur - Ferencváros |
1. nóvember | Benidorm - Valur |
22. nóvember | Valur - Flensburg |
29. nóvember | Pays d'Aix - Valur |
6. desember | Ferencváros - Valur |
13. desember | Valur - Ystad |
7. febrúar | Flensburg - Valur |
14. febrúar | Valur - Benidorm |
21. febrúar | Valur - Pays d'Aix |
28. febrúar | Ystad - Valur |
Mikill skóli fyrir félagið
Mikið er lagt í umgjörðina í Evrópudeildinni og margar stífar reglur frá EHF, Evrópska handknattleikssambandinu sem Valur þarf að fylgja. „Þú getur líka bara tekið þann pól í hæðina að svona eigi viðmiðið bara að vera. Ég geri mér samt alveg grein fyrir því að það er erfitt fyrir áhugamannalið með sjálfboðaliða að rigga upp svona umgjörð leik eftir leik. En svona viljum við hafa þetta og svona viljum við spila leikina. Því fleiri svona leikir því betra. En þetta er líka bara mikill skóli fyrir félagið að ganga í gegnum þetta, því það eru miklar kröfur frá EHF. Svona hlutir þurfa að vera í lagi, annars þruma þeir bara einhverjum sektum á okkur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals.
Leikur Vals og Ferencváros hefst klukkan 18:45 annað kvöld í Origo-höllinni að Hlíðarenda. Miðasala á leikinn er í gegnum vefinn tix.is.