Nýr forsætisráðherra er við sjónarrönd í Bretlandi, sá þriðji á sjö vikum. Ljóst varð síðdegis að Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra, hafði tryggt sér embætti leiðtoga Íhaldsflokksins og tekur þar af leiðandi við af Liz Truss á morgun eftir að hafa haldið á fund Karls konungs í Buckinghamhöll.

Graham Brady, formaður 1922 nefndarinnar, félags almennra þingmanna á breska þinginu, tilkynnti síðdegis að Sunak einn hefði tryggt sér nægan stuðning til að verða næsti leiðtogi flokksins.

Enginn leiðtogaslagur

Það stefndi í leiðtogaslag milli Rishis Sunaks og Pennyar Mordaunt, leiðtoga íhaldsþingmanna í neðri málstofu breska þingsins. Þau þurftu að tryggja sér stuðning að minnsta kosti eitt hundrað þingmanna til að verða kjörgeng. Sunak fór langt yfir lágmarksfjöldann, en Mordaunt vantaði stuðning nokkurra, að því er þingmaðurinn Bob Seely greindi fréttamönnum frá þegar niðurstaðan lá fyrir.

Kom, sá ... og fór

Reyndar stefndi í það þar til í gærkvöld að einn til viðbótar ætlaði að taka leiðtogaslaginn. Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra, kom á laugardag heim úr fríi í Dóminíska lýðveldinu og hófst þegar handa við að tryggja sér stuðning til að verða kjörgengur. Hann sendi óvænt frá sér yfirlýsingu í gærkvöld á samfélagsmiðlum þar sem hann sagðist vera hættur við.

Boris Johnson sagðist hafa sett sig í samband við Rishi Sunak og Penny Mordaunt og boðið samvinnu til að tryggja sem best þjóðarhag. Það hefði ekki gengið upp. Hann kvaðst hafa metið stöðuna svo að hann hefði ekki allan þingflokk íhaldsmanna á bak við sig og því hefði hann ákveðið að hætta við en lofaði stuðningi sínum við hvort þeirra sem sigraði.

„Ég trúi því að ég hafi margt fram að færa, en ég er hræddur um að þetta sé ekki rétti tíminn,“ sagði forsætisráðherrann fyrrverandi í yfirlýsingunni. Hann kvaðst hafa verið kominn með stuðning yfir eitt hundrað þingmanna og hefði farið létt með að sigra og verða fluttur inn í Downingstræti 10 á föstudag. En það byndi hendur forsætisráðherrans að hafa ekki óskiptan stuðning þingflokksins og því hefði hann ákveðið að draga sig í hlé.

Nægur stuðningur?

Sigrún Davíðsdóttir sem fylgst hefur með breskum málefnum um árabil sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að spurningar hefðu vaknað um yfirlýsingu Borisar Johnsons.

„Ef marka má það sem Johnson sagði sjálfur, hafði hann nægan stuðning,“ sagði Sigrún. „En það eru býsna margir á því að þetta sé enn eitt dæmið um heldur lausleg tengsl Johnsons við sannleikann. Hann hafi alls ekki haft nægan stuðning. Það hefur verið talað um sextíu þingmenn - og verið nefnd sextíu nöfn - sem hann hafi haft í hendi.“

Hyldjúpir erfiðleikar

Nýs forsætisráðherra Bretlands bíða ærin verkefni. Pólitísk ringulreið hefur ríkt vikum, mánuðum og jafnvel árum saman. Þá eru efnahagsmálin í ólestri eins og Rishi Sunak nefndi í sínu fyrsta ávarpi eftir að hann var lýstur nýr leiðtogi Íhaldsflokksins. Hann sagði að Bretland væri frábært land en það væri hafið yfir vafa að við blöstu hyldjúpir efnahagslegir erfiðleikar.

Sunak sagði einnig að Bretar þörfnuðust stöðugleika og samstöðu. Hann kvaðst ætla að gera allt sem í hans valdi stæði til að koma á sáttum milli Íhaldsflokksins og þjóðarinnar.

Hverjir fá ráðherrastóla?

Áður en Rishi Sunak leggur fram áætlanir til að bjarga efnahagsmálum Bretlands bíður hans það verkefni að skipa nýja ríkisstjórn. Breskir fjölmiðlar eru þegar teknir að velta fyrir sér hverjir eigi eftir að setjast á helstu ráðherrastóla. Reiknað er með að Jeremy Hunt verði áfram fjármálaráðherra. Hann tók við embættinu fyrir tíu dögum eftir að Liz Truss rak fyrirrennara hans Kwasi Kwarteng óvænt fyrir að framfylgja efnahagsstefnu hennar. Sunak lýsti því reyndar ekki yfir fyrirfram að Jeremy Hunt héldi embættinu, eins og Penny Mordaunt gerði. Þeir þykja hins vegar hafa svipaðar áherslur í ríkisfjármálum.

Aðrir líklegir

Sajid Javid þykir líklegt ráðherraefni Sunaks. Hann sagði af sér ráðherraembætti í ríkisstjórn Borisar Johnsons skömmu áður en Sunak gerði hið sama. Þeir hrundu með því af stað atburðarás sem leiddi til þess að forsætisráðherrann varð að biðjast lausnar. Sajid Javid er fyrrverandi fjármálaráðherra og var í eina tíð yfirmaður Sunaks í fjármálaráðuneytinu. Hann studdi reyndar Liz Truss í leiðtogakjörinu í sumar en stjórnmálaskýrendur telja að reynsla hans vegi þyngra þegar kemur að því að velja ráðherra í nýja ríkisstjórn. Mögulegt er talið að hann hreppi innanríkisráðuneytið.

Einnig er talað um Grant Shapps sem líklegan innanríkisráðherra. Hann tók við því embætti í síðustu viku þegar Suella Braverman sagði af sér.

Líklegt þykir að Ben Wallace haldi embætti varnarmálaráðherra. Hann hefur gegnt því frá sumrinu 2019 í ríkisstjórnum Borisar Johnsons og Liz Truss.

Þá gera breskir fjölmiðlar því skóna að Dominic Raab verði aðstoðarforsætisráðherra. Hann hefur lengi verið pólitískur samherji Rishis Sunaks og kom honum til varnar í sumar þegar Sunak var sakaður um að hafa svikið Boris Johnson. Þá er Jeremy Hunt sagður vera mögulegur aðstoðarforsætisráðherra ef hann heldur ekki fjármálaráðuneytinu.

Yngsti leiðtoginn í meira en tvær aldir

Rishi Sunak er 42 ára. Fara þarf 239 ár aftur í tímann til að finna yngri þjóðarleiðtoga í Bretlandi. William Pitt yngri tók þá  við embættinu 24 ára að aldri og varð reyndar einnig fjármálaráðherra. Sunak er fæddur í Bretlandi en á ættir að rekja til Indlands. Þar er því fagnað að maður af asískum ættum sé að taka við embætti forsætisráðherra í fyrsta sinn.

Sunak bárust í dag heillaóskir frá Narendra Modi forsætisráðherra sem kvaðst vonast til nánari samvinnu Breta og Indverja á alþjóðavettvangi. Honum þótti það einnig sérstakt fagnaðarefni að Rishi Sunak skyldi verða leiðtogi Íhaldsflokksins á diwali, ljósahátíð hindúa.