Á hverju ári heldur skátafélagið Fossbúar á Selfossi kvöldvöku sem er hluti af menningarmánuðinum Október í Árborg. Stemningin var mikil þegar Landinn leit við í síðustu viku.

„Það mætir fullt af fólki, bæði skátum og foreldrum. En einnig gömlum skátum sem eru ekki endilega enn í virku starfi. Svo erum við með sérstaka heiðursgesti sem eru Sólheimaskátarnir. Þetta er mjög opinn viðburður og það er í raun öllum boðið á þennan viðburð á hverju ári,“ segir skátaforinginn Úlfur Kvaran. 

Á kvöldvökunni er sungið, dansað og svo er boðið upp á skemmtiatriði.  

„Við erum alltaf með sömu lögin og sömu hefðirnar,“ segir skátinn Arney Sif Ólafsdóttir. „Þannig við kunnum þetta allt mjög vel og svo veljum við bestu lögin.“

„Mér finnst skemmtilegast að vera í kringum fólkið. Og sérstaklega að sjá foreldrana með börnunum. Þetta er ekki fyrsta kvöldvaka krakkanna en oft sú fyrsta hjá foreldrunum. Og þau taka þátt í þessum kjánalegu hreyfisöngvum og svona. Og bara fjörinu. Að vera saman í þessu og njóta samverunnar er það skemmtilegasta,“ segir Úlfur. 

„Það er mjög vinsælt að missa röddina eftir svona kvöld,“ segir Arney. „Og það er eiginlega skemmtilegasti parturinn.“