Matvöruverslunum með vörum frá öðrum löndum hefur fjölgað til muna á síðustu árum. Matvörur sem áður voru óaðgengilegar íslenskum neytendum eru nú fluttar inn vegna mikillar eftirspurnar. Kastljós fór á stúfana og skoðaði þetta nýja vöruúrval sem fjölmenningin hefur fært okkur.
Í Lóuhólum í Breiðholti er verslunin Afro Zone, sem var opnuð árið 2015 og selur sérvörur frá Afríku og eyjunum í Karíbahafi. Eigandi verslunarinnar segir kúnnahópinn vera fjölbreyttan.
„Það eru Íslendingar líka og fólk frá Suður-Ameríku og karíbsku eyjunum.“ segir Patience Karlsson.
Ásamt matvöru selur Afro Zone hárvörur sem eru hentugar fyrir afrohár, bæði sjampó og hárnæringu ásamt hárlengingum.
Yusuf Koca er frá Tyrklandi og rekur verslunina Istanbul Market á Grensásvegi. Hann hafði rekið matvöruverslun í heimalandi sínu áður en hann flutti til Íslands árið 2001.
„Ég fór að vinna byggingavinnu fyrst. En það kom tími um 2012, við byrjuðum að opna í Ármúlanum. Fyrst var ekkert að gera. Þetta tók langan tíma, ég myndi segja fimm til sex ár. Þegar þú ert að byrja lítið fyrirtæki, þú þarft að kynna, ef það koma Íslendingar þarft þú að útskýra, þú gerir þetta svona. Eldar matinn svona. En Íslendingar líka byrjuðu að elska þessa búð.“ segir Yusuf Koca.
Ofarlega á Laugavegi er verslunin Blóm í eggi sem selur suðuramerískar vörur. Eigendur búðarinnar segjast vilja leggja áherslu á að kynna viðskiptavinum sínum raunveruleg hráefni.
„Við erum að reyna að vera með allt original og best framleiddar matvörur til að koma til Íslands og líka sýna fólk hvað við erum með. Það er ekki bara til að elda latin-amerískan mat, það virkar líka til að vera með eitthvað annað.“
Opnaður hefur verið mikill fjöldi pólskra verslana á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Eigendur Euro Market segja Pólverja fagna því að hægt sé að kaupa pólskar vörur á Íslandi.
Ragnar Egilsson er áhugamaður um matseld frá öðrum ríkjum og fagnar þessari fjölgun sérvöruverslana.
„Það er margt sem við borðuðum ekki mikið fyrr en fólk kom frá öðrum löndum og kynnti okkur fyrir þessu sem einhver æskileg hráefni hvort sem það eru hversdagslegir hlutir eins og rækjur.”
Hann segir að matur sé leið til að kynnast nýjum menningarheimum og fólki frá öðrum löndum.
„Á ensku er frasinn, break bread. Það er þetta að þú ert í alvörunni, situr við borðið og ert að deila brauði, rífur og réttir einhverjum. Það hef ég alltaf trúað á að sé lykilþáttur í að brúa þetta bil og koma fólki saman.” segir Ragnar.
Fjallað var um matvöruverslunum með vörum frá öðrum löndumí Kastljósi. Hægt er að horfa á allt innslagið í spilaranum efst í færslunni.