Konur sem setið hafa í fangelsum eiga flestar langa áfallasögu og eru margar uppfullar af skömm yfir því að hafa misst frá sér börn sín. Þetta segir forstöðukona Batahúss, nýs áfangaheimilis fyrir konur sem lokið hafa afplánun. Forstöðumaður Batahúss fyrir karla segir brýnt að hjálpa fólki að mynda nýtt tengslanet. Þannig megi draga úr líkum á fleiri afbrotum. Kjörorð Batahúss séu: „Hver bíður við hliðið?“ að lokinni afplánun.
Aldrei hafa verið fleiri konur í fangelsum en nú. Þær eru alls sautján og ein í afplánun á áfangaheimili. Alla jafna hafa konur verið um og yfir sjö prósent fanga en eru núna tólf prósent. Samkvæmt upplýsingum Fangelsismálastofnunar er helsta ástæðan sú að sífellt fleiri konur eru gripnar við að bera fíkniefni inn til landsins.
Mikil skömm yfir því að hafa misst börn frá sér
Í tvö ár hefur verið starfrækt Batahús fyrir karla sem lokið hafa afplánun. Og nú hefur verið opnað Batahús fyrir konur.
„Þessar konur eru með mikla áfallasögu, eins og þeir auðvitað líka. Þær eru með langa og flókna áfallasögu. Og það sem líka einkennir margar þeirra er að þær eiga börn sem þær hafa misst forræði yfir, tímabundið eða alfarið. Því fylgir mikil skömm,“ segir Guðrún Ebba Ólafsdóttir, forstöðukona Batahúss fyrir konur.
Félagsmálaráðuneytið styður við Batahús og segir ráðherra miklu skipta að styðja þau sem lokið hafa afplánun.
„Aðstoða það við að komast aftur út í samfélagið. Þetta er oft fólk þar sem tengsl eru oft rofin við fjölskyldu, vini,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra (V).
Hjálpa fólki að verða fullgildir þjóðfélagsþegnar
„Okkar hlutverk hérna er að leyfa þeim að einblína á batann sinn. Að ég verði fullgildur þjóðfélagsþegn að nýju,“ segir Guðrún Ebba.
„Þetta er fyrst og fremst hugsað sem húsaskjól og öruggt heimili í allt að tvö ár fyrir þá sem eru að koma úr afplánun,“ segir Agnar Bragason, forstöðumaður Batahúss fyrir karla.
Markmiðið að fækka endurkomum í fangelsi
Batahúsin eru svokölluð þurr hús þar sem neysla áfengis og annarra vímugjafa er ekki leyfð. Íbúunum býðst að fara í sálfræðiviðtöl og fá ýmsan stuðning. Hvert er markmiðið með þessu?
„Að fækka endurkomum í fangelsi,“ segir Agnar.
Allt að helmingur fanga hefur áður setið í fangelsi. Agnar segir bestu leiðina til að hindra að fólki feti afbrotaleiðina á ný sé að mynda tengsl við þau sem hafi breytt lífi sínu til hins betra.
Vinirnir enn í afbrotum
„Af því að staðan er kannski sú fyrir þá sem eru að koma úr þessum heimi, að þeir hafa brennt margar brýr að baki sér og eiga kannski ekki mikið af vinum og þeir vinir sem þeir eiga eru kannski enn í þessum heimi,“ segir Agnar.
Pláss er fyrir þrjár til fjórar konur í Batahúsi. Fram til þessa hefur vantað úrræði fyrir konur sem koma úr fangelsi.
„Þær bara margar fara strax aftur á götuna,“ segir Guðrún Ebba.
Þau sem standa að Batahúsi fara með fræðslu og stuðning í fangelsin til þeirra sem vilja vera edrú. Agnar segir lítinn stuðning hafa verið til handa þeim sem oft hafi farið í fangelsi.
„„Gjörðu svo vel, hérna er strætómiði, gangi þér vel.“ Og það er kannski það sem er öðru vísi við þetta úrræði. Við erum að taka á móti þeim, við erum jafnvel að sækja þau í fangelsi. Og eitt af kjörorðum okkar er: „Hver bíður við hliðið?“ Af því að það er það sem skiptir svo rosamiklu máli. Hver bíður við hliðið þegar þú ert að koma úr fangelsi?,“ segir Agnar.