Fjölmenn samstöðumótmæli með írönskum konum og andófi gegn klerkaveldinu voru haldin í borgum víða um heim í gær. Þúsundir streymdu til að mynda til Berlínar frá öðrum evrópskum borgum, en þar tóku um áttatíu þúsund þátt í mótmælunum. Þau eru talin stærstu mótmæli Írana búsettra utan heimalandsins hingað til.
Um fimm þúsund mótmæltu í Kaupmannahöfn
Íslensk kona sem tók þátt í mótmælunum í Kaupmannahöfn í gær segir magnað að hafa fundið samhuginn á viðburðinum. Hún segir mikinn hita hafa verið í hópnum. Um það bil fimm þúsund komu saman þar í gær til að mótmæla ástandinu í Íran og klerkastjórninni sem þar er við völd. Margir báru grímur, af ótta við stjórnvöld í Íran. Íranir sem búsettir eru utan heimalandsins eru margir sagðir óttast um öryggi fjölskyldumeðlima sinna í Íran, og forðast það því að sjást á myndum frá mótmælum.
Blóðug mótmæli hafa geysað í Íran vikum saman. Þau kviknuðu eftir að rúmlega tvítug kona að nafni Mahsa Amini lést í haldi siðgæðislögreglu í Teheran, höfuðborg Íran, eftir að hafa verið handtekin fyrir að bera höfuðslæðu sína ekki rétt. Hún er sögð hafa verið barin til dauða. Mótmælin eru söguleg í landinu og borin uppi af ungum konum.
Danskar stjórnmálakonur klipptu hár sitt
Mótmælin í Kaupmannahöfn hófust fyrir utan utanríkisráðuneytið. Þaðan gekk hópurinn saman, hrópaði slagorð og söng. Að því loknu voru ræðuhöld og tónlistaratriði til stuðnings írönsku þjóðinni.
Nokkrir stjórnmálamenn tóku þátt í mótmælunum í Kaupmannahöfn í gær, þar á meðal Lars Løkke Rasmussen, fyrrum forsætisráðherra og þingkonurnar Mai Villadsen og Ida Auken. Þær klipptu báðar hár sitt til að sýna samstöðu með írönskum konum.