Nikótínpúðar geta étið upp tannholdið, ef fólk notar of mikið af þeim, segir Stefán Pálmason, sérfræðingur í lyflækningum munnhols. Þeir séu mögulega verri en munntóbak. Hann segir að slíkar breytingar séu óafturkræfar. Þriðjungur framhaldsskólanema yfir átján ára notar púðana. 

Nikótínnotkun unglingastigs í grunnskóla hefur aukist undanfarin ár samkvæmt nýjum gögnum frá Rannsókn og greiningu. 10% stelpna í 8.-10. bekk segjast hafa notað nikótín einu sinni eða oftar síðasta mánuð og 7% stráka. 

Um 30% yfir átján ára nota púðana

Margir skella skuldinni á nikótínpúðana, sem hafa komið með hvelli inn á markaðinn undanfarin ár. 7% tíundu bekkinga segjast nota nikótínpúða en hlutfallið hefur lækkað um 3% síðan í fyrra. Rafrettunotkun hefur nánast staðið í stað síðastliðin ár. 

Notkun níkótínpúða meðal nemenda í framhaldsskóla er svipuð milli ára, 16-18% þeirra sem eru yngri en 18 ára sögðust í fyrra nota nikótínpúða. Um þriðjungur framhaldsskólanema sem eru eldri en átján ára segjast hafa notað nikótínpúða oftar en einu sinni síðasta mánuð í rannsókninni hjá Rannsókn og greiningu.

Óafturkræft ef tannholdið hörfar

Sérfræðingur í lyflækningum segir að tannholdið þoli áreitið frá púðunum misvel. „Það er mögulega einhver aukning á að fólk sé að fá tannholdsvandamál. Það geta komið óafturkræfar breytingar í tannholdið ef það hörfar mikið og erfitt að laga það. Og getur verið mjög mikið lýti fyrir fólk“ segir Stefán Pálmason, tannlæknir og sérfræðingur í lyflækningum munnhols. 

Þessar myndir af sjúklingi Stefáns sýna hvernig nikótínpúði hefur eytt tannholdinu svo það sést í rætur tannanna. „Ræturnar á tönnunum verða berskjaldaðar. Þetta sést þegar fólk brosir og það getur komið kul og óþægindi í þetta.“

Stefán segir að samsetning púðanna og áhrif séu lítið rannsökuð. „Mér hefur fundist tannholdið vera kannski aðeins bólgnara hjá þeim en sem eru að taka þessa níkótínpúða miðað við munntóbakið.“

Þannig púðarnir eru jafnvel verri? „Mögulega verri fyrir þessar tannholdsbreytingar.“