Gerður Kristný, rithöfundur og skáld, segir sögu formóður sinnar á Ströndum í nýjum ljóðabálki sem heitir Urta. „Hún var 19 barna móðir, hún var ljósmóðir og hún var einfætt.“

Ljóðabálkurinn Urta segir frá formóður Gerðar Kristnýjar á Ströndum. „Ég átti formóður, Sigríði Jónsdóttur, sem fæddist 1845. Hún var á Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði á Ströndum. Hún var 19 barna móðir, hún var ljósmóðir og hún var einfætt.“ Gerður hefur vakið athygli fyrir kraftmikla ljóðabálka sína sem gjarnan segja sögur kvenna með einstökum hætti. Hún ræddi við Kiljuna um nýjasta ljóðabálkinn.  

Sögur sela og manna samtvinnaðar 

„Ég er að leika mér með þessa hugmynd um samband okkar mannanna við selina og þar með dýrin, við erum stundum selir og selir eru stundum við mannfólkið,“ segir Gerður Kristný. Urta er, eins og margir vita, kvenselur. Þjóðsögur af selum eru hluti af menningararfi Íslendinga, og fleiri þjóða, og selir eru sagðir hafa augu mannsins. „Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því þegar faraóinn, Egyptalandskeisarinn, eltir Móses yfir Rauðahafið og herinn hans drukknar. Þeir verða að selum. Þetta er víst uppruni þessarar dýrategundar.“ 

Samkvæmt þjóðsögunum skríða selir á land, sérstaklega á þrettándanum og Jónsmessunótt, og blanda sér í líf mannfólksins og syngja og dansa. „Við þekkjum öll sögur af urtum sem skríða á land og giftast körlum og eiga sjö börn í sjó og sjö á landi.“ 

Saga formóður innblástur 

Yrkisefni Gerðar í Urtu samtvinnar sögu formóður hennar og sela á Ströndum á 20. öld. „Ég átti formóður, Sigríði Jónsdóttur, sem fæddist 1845. Hún var á Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði á Ströndum. Hún var 19 barna móðir, hún var ljósmóðir og hún var einfætt.“ Veturnir voru kaldir á Ströndum en Gerður segir þó talsverða hlýju vera í ljóðabálkinum. „Vegna þess að þetta er líka saga um missi. Sigríður missir ekki bara fótinn, hún missir líka manninn sinn og hún missir nokkur barna sinna líka.“ 

„Einhvern tímann heyrði ég þá sögu af henni að hún hefði komið heim og sagst ekki geta starfað lengur sem ljósmóðir vegna þess að hún hefði hjálpað urtu við að kæpa. Þar með fannst henni hún hafa tekið þátt í einhverju svo óviðurkvæmilegu að hún ætti ekki að koma nálægt fæðandi konum aftur.“ Tengdadóttir hennar, sem hún ræddi við, náði þó að sannfæra hana um að láta ekki af störfum.  

„Mér fannst þetta merkileg saga og þar með byrjaði ég að yrkja. Þetta dugði til að fleyta mér af stað.“ 

Kann að meta beinskeyttan stíl, lausan við óþarfa tilfinningasemi 

Gerður hefur áður sent frá sér þrjá ljóðabálka en segir Urtu skera sig úr. „Blóðhófnir, Sálumessa og Drápa fjalla um konur rétt eins og þessi en það eru konur sem eru þolendur í viðsjárverðri veröld en þessi bálkur er öðru vísi.“ Í Urtu glímir Gerður við sagnfræði og sögu formóður sinnar.  

Hún segir ljóðabálkaformið henta sér vel. „Þeir rúma allt, það er alveg sama hvers konar sögu maður ætlar að segja.“ Hún leitar áhrifa til Eddusagna og Njálu og til Jónasar Hallgrímssonar. „Edduhættirnir, þar sem fólk kemur sér beint að efninu og er ekki með óþarfa tilfinningasemi, ég kann mjög vel við slíkt form.“  

Ljóðabálkar Gerðar einkennast af meitluðum stíl og hún velur hvert orð bálksins af kostgæfni. „Maður á ekki að vera með einhverja ljóðasóun í ljóðunum sínum, þess er engin þörf. Ef maður velur réttu orðin þá duga þau.“ Hún segist vera dugleg að skera burtu allan óþarfa í ljóðunum. „Þetta er norrænn minimalismi.“ 

Rætt var við Gerði Kristnýju í Kiljunni . Þáttinn má finna hér í spilara RÚV.