Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík og meðlimur í stjórn Strætó, segir fyrirtækið ekki illa rekið. Miklir fjármunir hafi tapast í heimsfaraldri og ekki nægilega mikið fengist úr ríkissjóði til að bæta upp tapið. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir Borgarlínu fela í sér stóraukinn rekstrarkostnað sem erfitt sé að sjá að Strætó ráði við.

Næturstrætó tilraunaverkefni sem ekki var fjármagnað

Strætó glímir við mikla fjárhagserfiðleika. Fargjöld voru hækkuð um mánaðamótin og næturstrætó var lagður niður í síðustu viku. Alexandra Briem ræddi málið í Vikulokunum ásamt þeim Berþóri Ólasyni og Guðmundi Árna Stefánssyni, oddvita Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. 

Alexandra segir næturstrætó hafa verið tilraunaverkefni sem var ekki sérstaklega fjármagnað. Alltaf hafi legið fyrir að fengist ekki fjármagn yrði þjónustan lögð niður í haust.

„Því miður þá bara fékkst ekki það fjármagn. Sveitarfélögin sem standa að Strætó telja sig ekki geta fundið meira fjármagn til að leggja félaginu. Það komu inn rétt rúmlega 500 milljónir frá sveitarfélögunum til að bara koma í veg fyrir greiðsluþrot hreinlega. Gjaldskrárhækkunin var líka nauðsynleg sem hluti af sama pakka.“

Hún segir Reykjavíkurborg þó ætla að skoða hvort hægt verði að halda áfram með næturakstur á þeim leiðum sem eru eingöngu á forsvari Reykjavíkur og kaupa þann akstur þá sérstaklega af Strætó. 

Ekkert að rekstri Strætó

Alexandra segir í raun ekkert að rekstri Strætó sem slíkum. Tekjutap í heimsfaraldri hafi numið 1,7 milljörðum króna og stuðningur frá ríkinu hafi einungis verið um 120 milljónir. Hún segir Strætó hafa gert ráð fyrir hærri upphæð úr ríkissjóði, miðað við hvernig stjórnvöld töluðu í upphafi faraldurs. Þetta hafa ráðherrar ekki kannast við. 

„Það getur verið að það sé einhver orðhengilsháttur öðru hvorum megin við þetta. Ég veit bara það sem mér var sagt, að Strætó gerði ráð fyrir því að það yrði bætt meira í út frá því sem ráðherrar höfðu sagt þegar COVID var að byrja.“

Hún bendir á að það fjármagn sem Strætó hafi verið búið að leggja fyrir áður en heimsfaraldur COVID-19 reið yfir, um 600 milljónir króna, hafi verið ætlað í orkuskipti og endurnýjun vagna.

„En meðal annars að eiga þann pening gerði það að verkum að ríkisstjórnin segir, þegar það er verið að skoða Covid-styrki: Þið eruð með svo rosalega sterka eiginfjárstöðu, við getum ekki verið að styrkja þetta of mikið.“

Þeir peningar hafi því farið í að halda fyrirtækinu á floti í faraldrinum. Ofan á þetta allt saman komi stríðið í Úkraínu með tilheyrandi hækkun olíuverðs, sem hafi mikil áhrif á rekstrarkostnað Strætó þar sem engin orkuskipti hafi orðið. Þar sem ekki var hægt að endurnýja vagnana séu þeir orðnir enn eldri og lélegri. Vegna þess að peningarnir voru allir notaðir í heimsfaraldrinum segir Alexandra að enginn stuðpúði hafi verið eftir í rekstrinum til þess að takast á við stöðuna.

„Þannig að þetta er í rauninni versta mögulega samblanda af aðstæðum.“

Telur að rekstur Borgarlínu verði sveitarfélögunum ofviða

Guðmundur Árni  segir ekki markmiðið í sjálfu sér að Strætó skili hagnaði, en að fyrirtækið verði að vera þannig fjárhagslega statt að það geti haldið úti þjónustunni, endurnýjað flota sinn og annað slíkt. Hann segist binda vonir við það að með tilkomu Borgarlínu renni upp nýir og góðir tímar. 

Bergþór Ólason segir að fjárfestinga- og rekstrarkostnaður við Borgarlínu, sem leggist á ofan á rekstur Strætó, sé gríðarlegur. 

„Miðað við vandræðin við rekstur Strætó, þá veit ég ekki hvernig sveitarfélögin ætla að fara að bæta við. Það er enginn að tala um að Strætó sé rekinn með hagnaði, því að stór hluti af tekjum Strætó eru auðvitað framlög sveitarfélaganna. Þannig að það er svona mjög teygjanlegt hvenær menn fara að tala um hvenær er hagnaður og ekki hagnaður af rekstrinum.“

Hann segist halda að þetta verði sveitarfélögunum ofviða. 

„Ég held að við séum að stefna út í eitthvað fen, sem mun í fyrsta lagi orsaka alveg ofboðslegan framkvæmdakostnað, á sama tíma og það mun þrengja að allri umferð fjölskyldubílsins á höfuðborgarsvæðinu. Og síðan - guð minn góður - þegar rekstrarkostnaðurinn tekur við. Þá held ég að þessi kostnaður sem snýr að næturakstri Strætó verði bara eitthvað grín við hliðina á vandamálinu sem blasir við fólki þá.“

Aðrar aðgerðir þrefalt dýrari og myndu skila minni árangri

Alexandra segir það rétt að kostnaður við næturstrætó séu smáaurar í samanburði við Borgarlínu. „En þegar félagið á bara ekki pening, þá liggur við að ég segi að það sé alveg jafn ómögulegt að halda áfram með næturstrætó eins og að kaupa auka kaffivél.“

Hún segir rekstrarkostnaðinn með tilkomu Borgarlínu þó ekki aukast svo mikið, miðað við þann samfélagslega ábata sem hún muni hafa í för með sér. 

„Það er bara búið að kanna að það að vera með öflugar almenningssamgöngur í sérrými, með tíðum ferðum, er eina leiðin til að bregðast við fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu sem mun verða á næstu árum og áratugum. Vegakerfið ræður ekki við fleiri bíla nema eitthvað verði að gert. Það er búið að sýna sig að ef við ætlum að bregðast við fólksfjölguninni með því að breikka vegi, fjölga vegum, bæta við mislægum gatnamótum, og fara ekki í neinar aðrar aðgerðir, þá myndi sú aðgerð vera sirka þrefalt dýrari heldur en Borgarlínan og myndi skila minni árangri. Það myndi verða meiri umferðaraukning á þessum næstu áratugum, heldur en ef við förum í borgarlínuverkefnið.“

Bindur miklar vonir við skynsamlega niðurstöðu um rekstur

Alexandra segir að við ættum ekki að koma Borgarlínunni á fótinn nema við ætlum að reka hana almennilega. Hún skili engum árangri ef ekki takist að manna vagnana og reka kerfið. 

„Það er núna verið að ræða það milli sambanda sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins hvernig Borgarlína og Strætó verði rekin til frambúðar. Ég bind miklar vonir við það að þar verði komist að skynsamlegri niðurstöðu. Vegna þess að þetta er bara það sem við þurfum að gera, ef við ætlum að draga úr umferð og það er líka bara mjög mikilvægt að þetta er líka raunhæfasta leiðin til þess að minnka traffíkina fyrir fólk sem verður áfram á bíl. Borgarlínan mun gera meira í að greiða fyrir þeirri umferð heldur en nokkur mislæg gatnamót gætu nokkurn tíma gert.“