Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra bindur vonir við að hann fái tækifæri til að mæla fyrir nýju útlendingafrumvarpi strax í næstu viku. Hann telur að það eigi ekki að taka Alþingi langan tíma að afgreiða það. Ráðherrann segist hafa stuðning fyrir frumvarpinu meðal ríkisstjórnarflokkanna.

Ráðherrann segist hafa stuðning fyrir frumvarpinu meðal ríkisstjórnarflokkanna. „Já, það hefur náðst sátt í ríkisstjórnarflokkunum um að afgreiða þetta frumvarp í gegn núna og ég er að leggja það fram í fimmta skipti, sem sambærilegt frumvarp er lagt fram. Við teljum að þetta sé mikil bót frá því sem er í núgildandi löggjöf. Þannig að það er full ástæða til að reyna að keyra þetta í gegn.“

Þingmenn Vinstri grænna hafa verið gagnrýnir á síðustu útlendingafrumvörp en Jón segir þetta frumvarp vera málamiðlun milli stjórnarflokkanna. „Við Katrín ræðum okkur niður á málamiðlanir í þessum málum sem öðrum. Þetta er málamiðlun á milli stjórnarflokkanna og ég tel að á grundvelli þess að þá munum við ná að klára þetta mál núna.“

Dómsmálaráðherra bindur vonir við að geta mælt fyrir frumvarpinu strax í næstu viku og vonar að það verði klárað sem fyrst. „Ég er að gera mér vonir um að fá að mæla fyrir málinu í næstu viku og þá verður það tekið til umræðu.  Ég tel að þingið þurfi ekki mjög langan tíma til að vinna þetta mál vegna þess að það er búið að koma sambærilegt mál fram áður og þar hefur málsmeðferðin átt sér stað. Nú síðast í vor. Þannig að ég er að vona að nefndin geti lokið málsmeðferð sinni fljótt og vel þannig að við getum klárað þetta sem fyrst.“