Í kvöld og annað kvöld kemur píanósnillingurinn Davíð Þór Jónsson fram á tónleikaröðinni Spunaflugi í Mengi. Hann hefur komið fram á tónleikaröðum um allan heim, unnið með sviðslistafólki og myndlistarmönnum og hlotið bæði Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuna fyrir verk sín, auk ýmissa evrópskra verðlauna fyrir kvikmyndatónlist sína.
Þó Davíð Þór Jónsson sé margrómaður og verðlaunaður tónlistarmaður lýsir hann sér fyrst og fremst sem föður og hundatemjara, að minnsta kosti þessi dægrin. Tónlistin hefur þó fylgt honum frá því hann var í móðurkviði því móðir hans, Jenný Ásgerður Magnúsdóttir, söng og spilaði á gítar þegar hann var enn „að synda í bumbunni,“ eins og hann segir sjálfur. Hún fór líka á lúðrasveitaræfingar þegar hún var komin langt á leið svo tónlistin var fjölbreytt sem hljómaði í móðurkviðnum. „Ég byrjaði mjög líklega að mæta á lúðrasveitaræfingar fyrir barnsburð," segir hann.
Og þegar Jenný Ásgerður svæfði drenginn sinn á kvöldin söng hún líka fyrir hann. Davíð man eftir því hvað það var róandi að hlusta á rödd móður hans þegar hann var um það bil að rata inn í draumalandið.
Á daginn ríkti svo tónlistarlegt frelsi á heimilinu og hann og bræður hans léku trommusóló á pottana í eldhúsinu og skemmtu sér vel. Davíð býr vel að þeirri reynslu.
Hann byrjaði svo að læra í tónlistarskóla Akraness hjá Fanneyju Karlsdóttur og eftir það segist hann ekki hafa litið um öxl á tónlistarvegferðinni. Þaðan lá leiðin í FÍH, hann fór í skiptinám til Þrándheims og útskrifaðist vorið 2001. Árið eftir gaf hann út sína fyrstu sólóplötu; Rask.
Hann hefur samið tónlist fyrir leiksýningar og kvikmyndir, útvarpsleikrit og sjónvarpsþætti. Myndlist og dans eru ekki síður hans vettvangur en hann hefur til að mynda unnið með Ragnari Kjartanssyni að myndbandsverkinu The End sem var framlag Íslands og Feneyjatvíæringnum árið 2009. Í samstarfi segir hann mikilvægast að beita sér ekki heldur hlusta og skynja.
„Samstarf og samspil finnst mér einhvern veginn vera rjóminn í þessu og maður lærir svo mikið þar að hlusta. Það er svo mikill dans í samspilinu og þar gerist svo margt sem gerist ekki hjá manni einum,“ segir hann.
Innblásturinn fyrir tónlist sína sækir hann sjálfur fyrst og fremst í náttúruna. „Vatn, sjór, fjöllin, ástæðan fyrir að við búum hérna eru náttúruöflin. Þau eru stærstu tónverkin alveg út í eitt. Og skepnurnar,“ segir Davíð að lokum.
Guðrún Sóley Gestsdóttir ræddi við Davíð Þór í Kastljósi á RÚV.